136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:19]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvar hæstv. fjármálaráðherra var þegar ég flutti ræðu um þetta. Hann hefur greinilega ekki hlustað á hana, það er greinilegt af máli hans. Það er furðulegt að koma í ræðustól og tala um ræðu sem hæstv. ráðherra hefur ekki hlustað á. Ég ætla ekki að endurtaka hana enda hef ég ekki tíma til þess.

Það sem er hins vegar gagnrýnisvert í þessum máli og raunar með ólíkindum er að fjármálaráðherra sem stendur hér fyrir hádegi og lætur mikið yfir því að það sé óbrúanlegt bil á ríkissjóði, komi síðan eftir kvöldmat og telji að það sé sjálfsagt að fjármagna ný útgjöld með lánsfé. Hann stendur hér fyrir hádegi og skammar okkur sjálfstæðismenn fyrir það að hafa skapað einhvern ótrúlegan ríkishalla og kemur svo um kvöldmatarleytið og segir að það sé sjálfsagt að brúa bil með lánsfé í tilvikum sem þessum eða að frumvarpið sé flutt af hæstv. menntamálaráðherra sem hefur þann boðskap helstan núna að það sé brýnast að lækka laun og hækka skatta. Það er kosningaboðskapurinn nú, að brýnast sé að lækka laun og hækka skatta. Við fjöllum hér um frumvarp sem gengur út á að auka hallann á ríkissjóði og hæstv. fjármálaráðherra telur að slík gagnrýni jafngildi andstöðu við að hér séu starfslaun listamanna. Það er algjörlega rangt því að eins og ég benti á í ræðu minni er grunnurinn að þessu frumvarpi lagður af menntamálaráðherra í tíð Sjálfstæðisflokksins.

Það sem við erum að gagnrýna er meðferðin á fjármunum og tvískinnungurinn í málflutningi hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra sem segir að það verði að lækka laun og hækka skatta.