136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:26]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um listamannalaun og það er ástæða til að undirstrika það í upphafi ræðu minnar að auðvitað getur verið mjög gefandi fyrir þjóðfélagið bæði að treysta launakjör listamanna og einnig að stuðla að því að fleiri geti starfað og unnið vel að listsköpun sinni. Það á auðvitað við um ansi marga aðila að ef við gætum gert ýmsum kleift að starfa og vinna að hugðarefnum sínum þá gætum við vissulega búið til betra þjóðfélag og bætt og aukið umsvif á ýmsum sviðum. En það hafa verið ein af þeim rökum sem rætt hefur verið um í þessu samhengi, þ.e. að það geti líka verið góð fjárfesting fyrir þjóðfélag að fjárfesta með þessum hætti því það skili sér margfalt til baka ekki bara í þjóðfélagsgerðinni sem slíkri heldur líka í efnahagslífinu.

Ég vildi koma aðeins inn á það af því að hæstv. fjármálaráðherra var í pontu á undan mér að þetta frumvarp er alveg dæmigert kosningatrix en hæstv. fjármálaráðherra sagði, held ég megi segja nánast orðrétt, að til þess að þetta frumvarp geti náð fram að ganga þurfi að fjármagna það með lántökum. En það á þá við um allt, sagði hann. Þetta þóttu mér alveg stórkostlega sérkennilegar röksemdafærslur, auðvitað á það ekki við um allt því það er alveg ljóst að í ríkissjóð koma ákveðnar tekjur en allt sem eytt er umfram þær er eitthvað sem þarf að taka lán fyrir og því á þetta alls ekki við um allt.

Það er vissulega rétt sem líka hefur komið fram í máli hæstv. menntamálaráðherra, ekki bara í gær þegar hún var að tala um að hækka yrði skatta og draga úr launakostnaði, það hefur klárlega verið að hluta til, eins og fram kom hjá hæstv. fjármálaráðherra, til að verja störfin en það var líka sagt í þeim tilgangi að verja stöðu ríkissjóðs. Þá kemur að þessari miklu pælingu hvernig við getum stuðlað að því að efnahagshjólin snúist áfram og tryggt að neysla og eyðsla í þjóðfélaginu sé með þeim hætti að atvinnulífið njóti góðs af. Með því að lækka laun er að sjálfsögðu minna til að borga skatta af og lækka laun og hækka skatta þýðir í rauninni að heildartekjur af sköttum þeirra aðila sem þá er verið að vísa til, opinberra starfsmanna lækka. Bæði lækkar skatturinn af launatekjunum og skatturinn sem verður til vegna neyslu, svokallaðir neysluskattar lækka auðvitað líka. Það sem gerist þá í þessu samhengi öllu saman er að hjól atvinnulífsins, þ.e. efnahagsumsvifin minnka. Þar með hægir á hjólum atvinnulífsins þannig að það markmið sem sett var fram nær ekki fram að ganga og markmiðið fer í rauninni að vinna í þveröfuga átt, þ.e. aðgerðirnar fara að vinna í þveröfuga átt við það markmið sem fram var sett.

Hins vegar hef ég tekið eftir því að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur afsalað sér ráðherralaunum, hann hefur gengið fram með það fordæmi að bæta stöðu ríkissjóðs með því að afsala sér ráðherralaunum og dregið þannig úr útgjöldum ríkissjóðs og það væri fróðlegt að spyrja — hæstv. fjármálaráðherra er reyndar ekki lengur í salnum — hvort það hafi verið fordæmisgefandi innlegg og fyrir aðra ráðherra í ríkisstjórninni. Þetta er vissulega dálítið sérstakt útspil hjá hæstv. heilbrigðisráðherra en það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. menntamálaráðherra og fjármálaráðherra leggi það líka til. Það er dálítið sérstakt að aðstoðarmaður ráðherra muni vera með hærri laun en hæstv. heilbrigðisráðherra þar sem ég hygg að aðstoðarmaðurinn sé með í kringum 700 þús. kr. á mánuði en þingfararkaupið er í kringum 500 þús. kr. Aðstoðarmaðurinn verður með miklum mun hærri laun en sjálfur ráðherrann en því hefur verið lýst yfir af fulltrúa BHM að það geti verið mjög varasamt að fara þessa leið, þ.e. ekki leiðina gagnvart ráðherrunum heldur leiðina gagnvart opinberum starfsmönnum. Þetta geti þýtt atgervisflótta, margt af okkar hæfileikaríka fólki flytji af landi brott því það mun ekki una slíkri skerðingu.

Þeir sjóðir sem nú er verið að bæta í eru launasjóðir til hönnuða. Ég hygg að það sé nýtt og ég fagna því í sjálfu sér að horft sé til þeirra eins og gert er með þessu frumvarpi. Launasjóður myndlistarmanna fær aukinn skerf, rithöfundar, sviðslistafólk, tónlistarflytjendur og launasjóður tónskálda.

Þar sem gert er ráð fyrir að við horfum á heildartöluna og ég hygg að einhverjir séu búnir að fara yfir það, þá er gert ráð fyrir að tekin verði lán til að fjölga mánaðarlaunum sem verði úthlutað á þriggja ára tímabili, alls um 400 mánaðarlaunum. Á árinu 2012 verða alls um 1.600 mánaðarlaun til ráðstöfunar, til starfslauna og styrkja í stað 1.200 mánaðarlauna eins og nú er. Við vitum það og það er tekið fram að misjafnt sé hvaða möguleika listamenn hafi til að afla sér tekna með listsköpun sinni. Í flestum tilvikum er sagt að tekjumöguleikar séu takmarkaðir. Ég get ekki tekið undir að það sé þannig í flestum tilvikum en auðvitað er það í mörgum tilvikum en það ku rétt vera að þetta geti skipt sköpum fyrir marga listamenn.

Að mörgu leyti hefur lítið verið gert úr þeim kostnaði sem fylgir þessu og í hinu stóra samhengi er það auðvitað rétt að þetta er ekki stór upphæð í sjálfu sér. En það kemur alltaf að þeirri spurningu og ég hef reynt að segja það hér margsinnis úr þessum ræðustóli að það skiptir auðvitað ofboðslega miklu máli hvernig við forgangsröðum þeim fjármunum sem við höfum milli handa. Ég hef alltaf litið svo á að hlutverk ríkisins væri að búa til umgjörð fyrir þegna landsins til að starfa í og þá kemur líka spurningin um hvernig umgjörðin eigi að vera. Dæmigerð breyting á umgjörð væri — þó að ég vilji ekki vera að gera neina sérstaka skattaundanþágu — t.d. ef allir sem legðu fyrir sig list fengju einhverja umbun, allir fengju sams konar umbun, t.d. skattafslátt ef þeir mundu starfa að ákveðnum verkefnum. Annað sem væri hægt að nefna í þessu samhengi væri ef við vildum hafa það að markmiði, eins og lagt er til grundvallar í þessu frumvarpi, að umsvifin í kringum þetta geti aukist með þeim hætti að þetta komi efnahagslífinu og ríkissjóði til góða þegar fram í sækir og ég ætla ekki að gera lítið úr því. Við sjáum það meira að segja að margir sem stunda list afla gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið og það á ekki bara við um kvikmyndageirann heldur á þetta líka við um t.d. rithöfunda þjóðarinnar. Þetta er auðvitað mikils virði.

Við getum hugsað okkur ef við tækjum þær 107 millj. kr. sem lagðar eru þarna til grundvallar og settum t.d. í ferðaþjónustu þá gætum við — og það hefur margsýnt sig að markaðssetning erlendis fyrir tiltölulega lága upphæð hefur skilað sér ofboðslega hratt í auknum gjaldeyristekjum, í auknum ferðamannafjölda til landsins — þá er það alveg klárt að það yrði partur í því að auka tekjur ríkissjóðs miklum mun hraðar og með sýnilegri hætti en hér gerist. Þar með hefðum við tækifæri til að rétta fyrr úr kútnum hvað varðar fjárlagahallann og þegar við hefðum náð tökum á fjárlagahallanum gætum við þegar kæmi að rekstrarafgangi farið í verkefni eins og þessi miklum mun frekar, þ.e. með því að forgangsraða öðruvísi gætum við aukið gjaldeyristekjur þjóðarinnar hraðar og náð fyrr tökum á ríkissjóði til að fara í verkefni af þessum toga, í stað þess að taka eingöngu lán til að standa undir verkefni eins og hér er verið að fjalla um, þ.e. að auka laun til listamanna.

Mér er það minnisstætt þegar ég vann í samgönguráðuneytinu á sínum tíma hversu ótrúlega litlir peningar voru settir í landkynningu og lítil aukning sem skilaði í rauninni alveg ótrúlega miklu ótrúlega hratt. Ég held að þannig hefði peningunum verið mun betur varið. Ég verð líka að segja og ég hef oft komið inn á það úr þessum ræðustól að það er í rauninni ótrúlegt hvað við þingmenn fáum lítið að sjá það hvernig ríkisstjórnin hafði hugsað sér að ná tökum á ríkisfjármálunum. Við fáum ekki að sjá það en svo sjáum við endalausa eyðslu í hina og þessa hlutina. Það er ekkert vandamál og svo lesum við um það í blöðunum að búið sé að ná tökum á ríkisfjármálunum og búið að finna leið til að auka vægið milli tekna og eyðslu. Ég vil lýsa eftir því hvar þetta plagg er sem fram kom í auglýsingum, að mig minnir Samfylkingarinnar um að væri til staðar. Hvar er þetta plagg? Ég verð að segja að ég hugsa að ræða mín mundi hljóma svolítið öðruvísi ef það plagg væri komið fram, ef þessi jafnvægispunktur væri fundinn. Ég er búinn að fara inn á fullt af vefsíðum með slóðinni punktur is eitthvað og ég hef hvergi fundið þetta og farið inn í býsna virkar leitarvélar til að reyna að finna út úr þessu.

Hæstv. forseti. Það er hins vegar þannig með þetta mikla fjárlagagat sem við erum með að mann óar fyrir því að samþykkja lántökur eins og þessar því auðvitað vantar marga stuðning við þá starfsemi sem þeir eru í. Það er fullt af frumkvöðlum sem eru nánast listamenn á sínu sviði, eftir því hvernig það er skilgreint, sem vantar fjármagn til að ýta úr vör góðum hugmyndum og mundu ekkert síður ná fram því sem sett er til grundvallar í þessu frumvarpi. (Gripið fram í: Skapa störf.) Skapa störf, mun hraðar en hér kemur fram og afleidd störf sem verða til í kringum þau þótt auðvitað verði líka til afleidd störf í kringum þetta. En að mínu mati hefði það ekki síður verið skynsamlegt.

Hins vegar eru mörg rök sem hér eru lögð fram hárrétt og auðvitað er það þannig að við öll sem sitjum á þingi og held ég flestir landsmenn, við vitum hversu mikils virði það er fyrir þjóðina að eiga öfluga og mikilsvirta listamenn og við vitum að þeir, nú sem áður, halda merki hennar hátt á lofti. Það skyldi þó ekki vera að það væri kannski eitt af því mikilvægasta sem við þyrftum að gera í dag. Ég vil þó undirstrika að þetta verður allt saman fjármagnað með lántökum, hér er dæmigert kosningatrix á ferðinni og það að búið sé að finna eitthvert jafnvægi milli ríkisútgjalda og fjáröflunar ríkissjóðs er mesta firra sem ég hef lesið um í einni auglýsingu síðan ég byrjaði í pólitík.