136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að þetta hefur verið rangur samanburður hjá mér að velta upp samgönguáætlunum og svo þessum litlu 17 milljónum. En ég gerði það í þeim tilgangi, eins og ég gerði tilraun til að koma frá mér áðan, að reyna að átta mig á því hvað stæði á bak við hin stóru orð hjá hv. þingmanni.

Þetta er vissulega ekki sambærilegt, það er hárrétt. Hér er verið að tala um 17 millj. kr. árið 2012. Í hinum tilfellunum var yfirleitt verið að tala um stórframkvæmdir og líklega milljónatugi, kannski hundruð á sama ári. En það var reyndar rétt fyrir kosningar.

Af því að minnst var á Héðinsfjarðargöngin voru rétt fyrir kosningar mjög miklar yfirlýsingar gefnar. Hins vegar var skömmu eftir kosningar allt dregið til baka. Það er mér mjög minnisstætt að hafa verið á nokkrum fundum á Siglufirði þegar þetta átti sér stað. Það er verst að sumir fyrrverandi hv. þingmenn skuli ekki enn vera hér í salnum til að geta rifjað það upp, ágætir flokksbræður hv. þingmanns. Þannig voru skapaðar miklar væntingar, mjög miklar væntingar til þessara framkvæmda. Og auðvitað var það rangt, ef það hefur verið tilfellið, að ekki var innstæða fyrir væntingunum vegna þess að það hafði nákvæmlega ekkert breyst í efnahagslegu tilliti á milli þessara ákvarðana. Meira að segja var gengið svo langt í því tilfelli að verkið var boðið út.

En hér erum við með þennan mikla málflutning hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins að tala um 17 milljónir árið 2012. Það er enginn að tala um neitt nýtt á þessu ári, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það verður engin breyting á þessu ári. Það verður breyting frá og með árinu 2010 og fjármagn er til í sjóðum fyrir þeirri aukningu alveg fram til ársins 2012.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að það er ótrúlega mikið gert úr þessum 17 milljónum árið 2012.