136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[21:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ekki sé hægt að ætlast til þess að ég svari í stuttu andsvari stefnu hæstv. menntamálaráðherra í ræðuhöldum á framboðsfundum. Málið er hins vegar það að við erum að ræða í 3. umr. frumvarp til laga um listamannalaun. Ég held ég reyni að halda mig við það. Ég get fullyrt það við hv. þingmann að ef þær tölur sem hv. þingmaður fór með og margir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa farið með eru réttar og ef ég hefði komist að þeirri niðurstöðu að þau útgjöld öll mundu bíða okkar á næsta ári hefði ég aldrei samþykkt þetta frumvarp. Það er ósköp einfalt mál. Við yfirferð í nefndinni og skoðun á hlutunum og því að hafa fengið vitneskja um það, ekki bara frá hæstv. ráðherra heldur embættismönnum í menntamálaráðuneytinu, að þeir fjármunir væru til staðar þau ár sem ég nefndi áðan, í ljósi þess tel ég að við eigum að samþykkja frumvarpið. Ég tel alveg eins og ég veit að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja líka að efnislega sé frumvarpið gott.

Eini fyrirvari hv. þingmanna hefur verið þessi misskilningur sem ég gerði tilraun til að leiðrétta í 2. umr. Hæstv. menntamálaráðherra gerði tilraun til þess í 1. umr. að hafa áhrif á það að málið yrði ljósara. Hér við 3. umr. hef ég aftur gert tilraun til þess að vekja athygli á staðreyndum málsins og ég verð að segja að lokum, virðulegur forseti, að ég trúi ekki öðru en að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þegar þeir hafa yfirvegað málið og hugsanlega sofið á því a.m.k. eina nótt, komist að þeirri niðurstöðu að það sé eðlilegt að styðja þetta frumvarp.