136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

lífsýnasöfn.

123. mál
[21:41]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman, formanni heilbrigðisnefndar, fyrir góðar viðtökur við ábendingum mínum. Ég heyri að við erum algerlega sammála um þetta atriði. Hv. þingmaður segir að 90% af þessum sýnum sé hent. Ég þekki ekki þær tölur en minni á það sem ég sagði áðan, sem er út af fyrir sig umhugsunarefni, að þessi mikilvægu lífsýnasöfn okkar, sem voru til árið 2000 eða raunar fyrr — þegar farið var af stað með samningu þessa frumvarps sem varð að lögum um lífsýnasöfn þá var til safn af sýnum sem allir héldu að hefði verið hent. Þar var um að ræða, ég veit ekki hvað við eigum að kalla það, söfnunaráhuga eða söfnunaráráttu vísindamanna. Ég veit ekki hvort við eigum að segja framsýnna manna, við segjum núna að þeir hafi verið framsýnir af því að þessi söfn eru ákaflega mikilvæg. Það vekur líka upp ákveðnar spurningar af því að ef við hefðum á þeim tíma búið við það regluverk sem við búum við nú hefðu þessi söfn aldrei orðið til til ómælds skaða fyrir vísindasamfélagið hér.

Það er auðvitað verulegt umhugsunarefni hvort við erum, með því regluverki sem við erum að setja af stað núna og höfum sett af stað, að koma í veg fyrir að álíka söfnun geti átt sér stað fyrir framtíðina, ég skal ekki um það segja. En það er auðvitað ákveðið umhugsunarefni að þarna voru hlutirnir til í skjóli regluleysis, söfn sem allir eru sammála um að séu ómetanleg verðmæti, ekki bara fyrir einstaklinga og afkomendur þeirra sem þarna eiga sýni heldur fyrir vísindasamfélagið og þar með þjóðina alla.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir góð viðbrögð við ábendingum mínum.