136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

lífsýnasöfn.

123. mál
[21:58]
Horfa

Frsm. heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir orðum hv. þm. Björns Bjarnasonar þegar hann talaði um lífsýni og lífsýnasöfn lögreglu eða dómsyfirvalda. Þau lífsýnasöfn sem við erum að fjalla um nú og frumvarpið tekur á eru lífsýnasöfn þjónustusýna. Það er þjónustusýni sem er vegna heilbrigðisþjónustu við einstaklinginn. Þjónustusýni er lífsýni tekið vegna heilbrigðisþjónustu við hvern einstakling. Lífsýnasafn vísindasýna er tekið vegna rannsókna á heilbrigðissviði þannig að hvorug þessara skilgreininga sem frumvarpið fjallar um nær yfir það lífsýnasafn sem hv. þingmaður var að vísa til. Við á hv. Alþingi þekkjum vel til þeirra möguleika sem lífsýni geta veitt lögreglurannsóknaryfirvöldum vegna brota eða til persónuauðkenna en slík söfn falla ekki undir þau lífsýnasöfn sem þetta frumvarp fjallar um. Ég hefði áhuga á því að vita hvort slík söfn eru í raun og veru til og undir hvaða formerkjum þau eru þá geymd.