136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[23:52]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Frumvarpið er í 10 greinum og efnislega var samstaða í viðskiptanefnd um þær flestar. Þó var áherslumunur í nokkrum atriðum milli 1. og 2. minni hluta nefndarinnar eins og fram kom í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar. Frumvarpið felur í sér þrjár breytingar á lögum um hlutafélög og ein þeirra nær einnig til einkahlutafélaga.

Fyrsta ákvæðið lýtur að því að auka gagnsæi um eignarhald og atkvæðisrétt í íslenskum hlutafélögum og má segja að það sé komið til af gagnrýni um skort á slíku gagnsæi, ekki síst þeirri gagnrýni sem heyrst hefur í kjölfar bankahrunsins. Þannig er stjórnum hlutafélaga gert að sjá til þess að hlutaskrár geymi réttar upplýsingar um hluthafa, hlutafjáreign þeirra og atkvæðisrétt, einnig að stjórnin sjái um að á aðalfundi liggi fyrir samantekt um hlutafjáreign einstakra hluthafa, rétt þeirra til að greiða atkvæði og um breytingar sem orðið hafa á félaginu. Umræður um aukið gagnsæi í þessu samhengi eiga sér stað víðar í tengslum við stjórnarhætti í fyrirtækjum og samrýmist ákvæðið góðum stjórnarháttum a.m.k. í mínum skilningi á þeim. Þess má geta að varla ætti að þurfa að taka þessi ákvæði fram í þessum lögum. Það gefur augaleið að þessar upplýsingar hljóta að þurfa að vera réttar á hverjum tíma. Það er því fagnaðarefni og um það var alger samstaða í viðskiptanefnd að styðja þessi ákvæði.

Þá er fjallað um kynjahlutföll í stjórnum og að gætt skuli að kynjahlutföllum við ráðningu framkvæmdastjóra. Ég er hjartanlega sammála því að eftirlit sé haft með kynjahlutföllum í stjórnum og framkvæmdastjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga. Jafnrétti kynjanna er alls ekki til að dreifa í stjórnum og stjórnunarstöðum í hlutafélögum okkar. Samkvæmt úttekt Hagstofu Íslands voru 9 af hverjum 10 framkvæmdastjórum, stjórnarformönnum og stjórnarmönnum fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri karlar. Á tímabilinu frá 1999–2007, næstum áratug, hefur kynjaskipting stjórnarmanna og stjórnarformanna nánast verið sú sama, 22% konur og 78% karlar. Á sama tímabili kemur fram að hlutfall kvenna í framkvæmdastjórnum hefur hækkað úr 15% í 19%. Í stjórnum stærri fyrirtækja á Íslandi hafa milli 85–95% stjórnarmanna verið karlar til langs tíma þannig að nauðsynlegt er að varpa kastljósi á þetta mál. Kynjaskipting í stjórnum hefur vart breyst á undanförnum áratug. Vonandi verður breyting á í kjölfar bankahrunsins.

Ein leið sem rædd hefur verið víða til að jafna kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja er að setja á svokallaðan kynjakvóta og hefur sú leið t.d. verið farin í Noregi. Ég hef eindregið verið þeirrar skoðunar að konur eigi að veljast í stjórnir á eigin verðleikum, á grundvelli hæfni og hæfis en alls ekki á grundvelli kynjakvóta. Hið sama vil ég segja um stöðu framkvæmdastjóra og forstjóra í félögum. Ég vil þó vissulega sjá jafnara hlutfall kvenna og karla því að þannig er eðlilegt að þróunin verði. Auk þess hafa konur í æ ríkari mæli sótt sér háskólamenntun og reynslu sem gerir þær vel hæfar til að sinna leiðtogastörfum, hvort sem um er að ræða stjórnar- eða stjórnunarstörfum. Ég vil þó segja að ef ekki sjást jafnari kynjahlutföll í stjórnum og stjórnun í kjölfar bankahruns má að mínu viti huga að því hvort setja eigi á kvótakerfi síðar meir. Þetta segi ég í ljósi þeirra karllægu gilda um kapp og áhættusækni sem virtust einkenna starfsemi ýmissa þeirra fyrirtækja sem að undanförnu hafa farið í þrot. Við þurfum meira jafnvægi í þekkingu og reynslu þeirra sem stjórna. Konur hafa sýnt að þær eru afar ábyrgar og meðal eiginleika þeirra sem ættu að gagnast stjórnum vel er svokölluð áhættumeðvitund og víðsýni. Þó að vissulega sé ekki algilt að eiginleikar séu karllægir eða kvenlægir þá er þetta í stóru myndinni upplifun mín á muni kynjanna. Þrátt fyrir að ég sé fylgjandi ákvæðum í 2. gr. og svo í 8. gr. frumvarpsins — þetta eru sams konar ákvæði, 2. gr. á við hlutafélög og 8. gr. á við einkahlutafélög — að hluta til, samanber það sem að ofan segir um kynjahlutfall og kynjahlutföll, leggur 2. minni hluti viðskiptanefndar, sem ég tilheyri, til breytingar á 2. og 8. gr. sem fjalla um upplýsingagjöf til hlutafélagaskrár um kynjahlutfall. Við teljum þá upplýsingagjöf sem felst í niðurlagi lokamálsliða greinanna of viðurhlutamikinn en þar er kveðið á um að félag skuli í tilkynningum til hlutafélagaskrár sundurliða upplýsingar um starfsmenn félagsins samkvæmt stöðu þeirra eftir skipulagi. Það krefst mikillar vinnu að taka saman upplýsingar af slíku tagi og telur 2. minni hluti að upplýsingagjöf af þessu tagi samrýmist ekki yfirlýstum tilgangi frumvarpsins sem er að jafna hlut kynjanna í áhrifastöðum. Því leggur 2. minni hluti til að framangreindir málsliðir falli brott og eftir standi að félög skili sundurliðuðum upplýsingum um hlutföll kynja í stjórn.

Það eru í raun tvær setningar í þessum greinum, 2. og 8. gr., ég ætla að lesa síðari setninguna, með leyfi hæstv. forseta:

„Í tilkynningum til hlutafélagaskrár skal sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna í stjórn, …“

Þetta er fyrri málsliður í seinni setningu og 2. minni hluti lýsir sig fylgjandi þessu. Ég ætla síðan, með leyfi hæstv. forseta, að lesa seinni málsliðinn sem ég tel að við ættum að láta niður falla sem og fulltrúar í 2. minni hluta viðskiptanefndar. Hann hljóðar svo:

„… svo og hlutföll kynjanna meðal starfsmanna eftir stöðu þeirra samkvæmt skipulagi.“

Þetta hljómar ekki rétt, þetta hljómar mjög skringilega og það kemur reyndar fram í nefndaráliti 1. minni hluta hv. viðskiptanefndar að sá minni hluti leggur til að setja tvær takmarkanir á 2. gr. og svo samsvarandi á 8. gr. Þessar tvær takmarkanir eru þær að þetta skuli aðeins gilda um fyrirtæki sem hafi 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli og í öðru lagi er lagt til breytt orðalag.

Ég ætla að endurtaka, með leyfi forseta, orðalagið sem 2. minni hluti vill að falli brott og síðan ætla ég að lesa orðalagið eins og 1. minni hluti vill breyta því — „svo og hlutföll kynjanna meðal starfsmanna eftir stöðu þeirra samkvæmt skipulagi.“ Þetta hljómar einhvern veginn mjög skringilega, enda er önnur takmörkun sem 1. minni hluti leggur til að breyta þessu sama orðalagi þannig að í stað þess að veita skuli upplýsingar um hlutföll kynja ,,meðal starfsmanna eftir stöðu í skipulagi“ verði kveðið á um að veittar verði upplýsingar um hlutföll kynja meðal starfsmanna og stjórnenda félagsins. Núna á hlutafélagaskrá að hafa upplýsingar um það hvers konar kynjahlutfall er í stjórn viðkomandi hlutafélags og/eða einkahlutafélags, en þar að auki um hlutföll kynja meðal starfsmanna. Ég sé ekki að þetta þjóni nokkrum tilgangi, enda leggur 2. minni hluti til, eins og áður sagði, að ákvæðið verði hreinlega fellt út úr frumvarpinu og verði þá ekki að lögum.

Jafnréttislögin gera ráð fyrir að ákveðnar skyldur hvíli á félögum í tengslum við jafnréttismál. Í því ljósi vil ég undirstrika að ákvæði um upplýsingar um kynjahlutföll í stjórnum í þessu frumvarpi er hvatning til stjórna og aðstandenda félaganna um að gæta skuli að jafnrétti kynjanna. Ég tek undir það.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu lagt til í 4. gr. að við lög um hlutafélög verði bætt ákvæði um starfandi stjórnarformenn. Árið 2004 setti þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, á laggirnar nefnd um íslenskt viðskiptaumhverfi undir forustu Gylfa Magnússonar, núverandi hæstv. viðskiptaráðherra. Eins og fram kemur í nefndaráliti 1. minni hluta viðskiptanefndar lagði meiri hluti nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi, eins og sú nefnd var kölluð, til að stjórnarformanni hlutafélags yrði ekki heimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem féllu undir eðlileg störf stjórnarformanns.

Í áliti nefndarinnar frá 2004 kom fram að hún teldi óæskilegt að stjórnarformenn væru í reynd hluti af framkvæmdastjórn félags, enda væri eitt af hlutverkum stjórnarformanns að stýra eftirliti stjórnar með félaginu. Fram hefur komið að ákvæðið er byggt á grein í dönskum lögum um hlutafélög en þar á það þó aðeins við um félög sem eru skráð á markaði. Danmörk er reyndar eina nágrannaríki okkar sem hefur lögfest ákvæði sem miðar að því að takmarka starfssvið starfandi stjórnarformanns. Í dönsku lögunum eru þrengri ákvæði en frumvarpið gerir ráð fyrir og vilji er til að setja ekki um of íþyngjandi skilyrði fyrir minni hlutafélög. Því leggur 2. minni hluti viðskiptanefndar til að ákvæðið nái einungis til félaga sem ber skylda til að kjósa sér endurskoðanda sem er sama viðmið og í 79. gr. a laga um skyldu félags til að samþykkja starfskjarastefnu fyrir félagið.

Í nefndaráliti frá 2. minni hluta viðskiptanefndar kemur fram, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti leggur til að tvenns konar breytingar verði gerðar á frumvarpinu. Annars vegar eru lagðar til breytingar á 2. og 8. gr. sem fjalla um upplýsingagjöf til hlutafélagaskrár. Telur 2. minni hluti þá upplýsingagjöf sem felst í lokamálsliðum greinanna of viðurhlutamikla en þar er kveðið á um að félag skuli í tilkynningum til hlutafélagaskrár sundurliða upplýsingar um starfsmenn félagsins samkvæmt stöðu þeirra eftir skipulagi. Það krefst mikillar vinnu að taka saman upplýsingar af þessu tagi og telur 2. minni hluti upplýsingagjöf af þessu tagi ekki samræmast þeim tilgangi frumvarpsins að jafna hlut kynjanna í áhrifastöðum. Því leggur 2. minni hluti til að framangreind ákvæði falli brott og eftir standi að félög skili sundurliðuðum upplýsingum um hlutföll kynja í stjórn. Hins vegar leggur 2. minni hluti til að ákvæði 4. gr. frumvarpsins um starfandi stjórnarformenn verði takmarkað í þá veru að það nái einungis til félaga sem ber skylda til að kjósa sér endurskoðanda sem er sama viðmið og er í 79. gr. a laga um hlutafélög um skyldu félags til að samþykkja starfskjarastefnu fyrir félagið.“

Sem áður sagði ná dönsku lögin einungis til þeirra félaga sem skráð eru á skipulega verðbréfamarkaði. Ef við nýttum okkur það viðmið að hafa þetta eins hér á landi og er í dönsku lögunum þá mundi frumvarpið og þá væntanlega lögin einungis ná yfir 12 hlutafélög því það voru einungis 12 skráð félög í Kauphöll Íslands þegar þessi umfjöllun átti sér stað í viðskiptanefnd 23. mars sl. og taldi 2. minni hluti viðskiptanefndar rétt að velja annað viðmið. Viðmiðið sem varð fyrir valinu er það sem áður var nefnt um endurskoðandaskylduákvæði og nær það yfir um 550 hlutafélög. Eins og fram kom í máli hv. formanns viðskiptanefndar nær frumvarpið yfir 800 félög.

Hv. þm. Jón Magnússon nefndi að við búum nú við þannig umhverfi í fyrirtækjarekstri okkar að sum hlutafélög eru afar smá og okkur þótti rétt að takmarka að vissu leyti til hversu margra og hvers konar félaga þetta ákvæði ætti að ná. Þrátt fyrir að 2. minni hluti viðskiptanefndar vilji rýmka ákvæðið miðað við það sem fram kemur í frumvarpinu um starfandi stjórnarformenn og láta það ná einungis til þessara 500 félaga þá minni ég aftur á dönsku lögin. Ef við mundum sníða frumvarpið og lögin eftir þeim mundi það einungis ná til 12 félaga. Hvernig sem á starfandi stjórnarformenn er litið er algerlega ljóst í mínum huga að skilgreina þarf afar vel og afmarka skýrt verksvið og verkefni stjórnarformanns, hvaða verkefnum hann megi sinna og hvaða löggerninga hann megi gera í nafni félags. Þannig er 2. minni hluti sannfærður um að takmarka beri að starfandi stjórnarformenn ...

(Forseti (ÞBack): Einn fund í þingsalnum.)

Það beri að skoða mjög vel starfssvið starfandi stjórnarformanna, við vildum ekki útrýma þeim alveg, en þó þarf að vera ljóst að starfssvið þeirra þarf að vera afar skýrt afmarkað.

Um aðrar greinar frumvarpsins var nefndin nokkuð sammála. Í 3. gr. frumvarpsins kemur fram:

„Gætt skal að kynjahlutföllum við ráðningu framkvæmdastjóra og skulu hlutafélagaskrá gefnar upplýsingar í tilkynningum til skrárinnar um hlutföll kynjanna meðal framkvæmdastjóra.“

Ég gæti farið út í það að hugtakið framkvæmdastjóri er svolítið á reiki í íslenskum fyrirtækjarekstri. Samkvæmt hlutafélagalögum er framkvæmdastjóri kannski sams konar hugtak og forstjóri eins og það er stundum notað. Framkvæmdastjóri er oft notað um þá sem sitja í framkvæmdastjórn. Það mætti því gera ágreining um tæknileg mál í 3. gr. Við gerðum það hins vegar ekki og erum hlynnt því í 2. minni hluta að senda hvatningu til allra þeirra sem stunda fyrirtækjarekstur og starfsemi í hlutafélögum hér á landi til þess að jafnrétti aukist í framkvæmdastjórnum fyrirtækja sem og í stjórnum.

Þá ætla ég að lýsa mig fylgjandi því að 1. minni hluti var með breytingartillögu á bls. 3 í nefndaráliti sínu þar sem kemur fram ákveðinn aðlögunartími við ákvæðinu um starfandi stjórnarformenn og ég tel að það sé afar heppilegt.