136. löggjafarþing — 132. fundur,  16. apr. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[00:17]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það var þannig í eina tíð að þáverandi hv. þm. Lúðvík Jósepsson skapaði þá hefð á þinginu að næturfundir skyldu ekki haldnir nema tvær nætur í röð. Ekki þótti tilhlýðilegt að halda lengur svo á málum nema tvær nætur í röð, að haldnir væru næturfundir. Undir þær óskir hafa seinna tekið hv. þm. Ögmundur Jónasson, núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra og fleiri. Ég sé hv. þm. Árna Þór Sigurðsson í salnum og ég veit að hann minnist þessa vegna áhuga síns á pólitík, þ.e. að hv. þm. Lúðvík Jósepsson taldi það alveg einsýnt þegar mikið var á dagskrá þingsins, alveg sama um hvaða mál var að tefla, að aldrei skyldi haldið áfram lengur en tvær nætur í röð með næturfundi.

Þess vegna hlýt ég að heita á hæstv. forseta núna þegar til þess er tekið að þetta er ábyggilega tíunda nóttin í röð, páskafrí reyndar inn á milli, sem (Forseti hringir.) þingið hefur starfað þar sem hafa verið stanslausir næturfundir. Hæstv. forseti hlýtur að þurfa að (Forseti hringir.) að víkja til þess hvernig hlutirnir hafa farið í þingsölum.