136. löggjafarþing — 132. fundur,  16. apr. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[00:57]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé full ástæða til að þakka hæstv. forseta fyrir það núna klukkutíma eftir að við byrjuðum að spyrja hann að hann getur sagt okkur hvernig dagskráin eigi að vera í nótt. Mér er hins vegar er fyrirmunað að skilja af hverju ekki var hægt að segja þetta fyrir klukkutíma. Hvað hefur gerst á þessum klukkutíma sem gerir það að verkum að nú allt í einu er hægt að segja frá þessu? Mér líður eins og í leikskóla en það er kannski bara mín tilfinning en ekki eitthvað annað. Ég meina, við erum jú öll hérna fullorðið fólk. En alla vega er þetta áhugavert og gott að vita.

Vandinn er sá að sjúkraskrárfrumvarpið á að taka fyrir næst, og það er alveg hárrétt sem hv. þm. Ásta Möller benti á, en ég mundi líka gjarnan vilja að hæstv. heilbrigðisráðherra væri á staðnum því að þar koma inn verulegir fjármunir. Ef þetta kerfi á að virka og á að skila öllu því hagræði sem það getur skilað í heilbrigðiskerfinu, (Forseti hringir.) sem hlýtur að vera undirstaða núna á þessum tímum, (Forseti hringir.) þarf hann að vera hér til andsvara vegna þessa máls. Ég held að við ættum kannski að hlaupa yfir 13. liðinn og fara yfir í þann 19. og þá getum við öll verið glöð.