136. löggjafarþing — 132. fundur,  16. apr. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[01:08]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tel að fundarstjórn forseta hafi verið með miklum ágætum og það sé ekkert upp á hana að klaga þrátt fyrir það sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins halda fram. Það er líka erfitt að átta sig á því hvað þeim gengur til þegar annars vegar er sagt að ekki sé hægt að ræða hér mál sem fjallar um sjúkraskrár vegna þess að það þurfi að ræða það svo mikið en síðan er boðið upp á að taka fyrir önnur mál sem líka þurfi mikla umræðu. Það stendur náttúrlega ekki steinn yfir steini í þessu. (Gripið fram í.) Hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur er vel kunnugt um það hvaða mál munu væntanlega kalla á umtalsverða umræðu.

Ég get upplýst um það að ég veit ekki betur en hv. formaður heilbrigðisnefndar sé á skrifstofu sinni í næsta nágrenni við þinghúsið og reiðubúinn að koma og ræða um sjúkraskrármálið ef á þarf að halda. En ég held að menn ættu að einbeita sér að því að ljúka umræðu um það mál sem hér er þó þrátt fyrir allt til umræðu nú, sem fjallar um hlutafélögin, að þeirri umræðu verði lokið (Forseti hringir.) og svo sjái menn til. Ég minni á að enginn ágreiningur var um (Forseti hringir.) það í upphafi þingfundar í dag að halda þessum fundi áfram fram á nótt.