136. löggjafarþing — 132. fundur,  16. apr. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[01:09]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við erum í 2. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög þar sem lagðar eru til breytingar á eignarhaldi, kynjahlutföllum og reglum um starfandi stjórnarformann. Eins og ýmis önnur frumvörp sem hér hafa verið til umræðu í dag á frumvarpið rætur að rekja til þess ástands sem hér skapaðist síðasta haust eftir hrunið, þ.e. að hluta til, og er þar þá fyrst og fremst um að ræða eignarhaldsákvæðin, önnur ákvæði eru sett með og ég mun koma nánar að því á eftir.

Það er sem sé þrennt sem gert er ráð fyrir að breyta í lögum um hlutafélög annars vegar og lögum um einkahlutafélög hins vegar og ég ætla að víkja fyrst að eignarhaldinu. Tilgangurinn með þeim breytingum sem lagðar eru til á lögum um hlutafélög er að auka gagnsæi í eignarhaldi og atkvæðisrétti hluthafa í íslenskum hlutafélögum. Það hefur nefnilega komið í ljós og er eitt af því sem talið er að hafi valdið margvíslegum vanda hér að í íslenskt viðskiptalíf hafi skort gagnsæi um þetta atriði. Þó að í gildandi lögum séu ákvæði sem gera ráð fyrir því að haldin sé hlutaskrá og hluthafaskrá er talið nauðsynlegt að styrkja þessi ákvæði með því að leggja berum orðum þá skyldu á stjórn hlutafélags að sjá til þess að hlutaskráin geymi á hverjum tíma réttar upplýsingar um hluthafa og hlutafjáreign þeirra og atkvæðisrétt.

Hins vegar er augljóst að slíkar upplýsingar einar og sér nægja ekki til að tryggja viðunandi gagnsæi. Þess vegna er einnig lagt til að geta þurfi allra samstæðutengsla sem félagið er í og er talið nauðsynlegt til að hægt sé að kortleggja allt eignarhaldið.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til er talið að gagnsæi um eignarhald og meðferð hluta verði meira en verið hefur. Til viðbótar fylgir þessum breytingum að hluthafar fá meiri og betri rétt til þess að fá frá stjórn upplýsingar um eignarhald, atkvæðisrétt og samstæðutengsl annarra hluthafa.

Síðan er gert ráð fyrir breytingum sem snúa að kynjahlutföllum í stjórnum og í æðstu stjórnum félaga og um starfandi stjórnarformenn. Þar sem félagar mínir hafa farið talsvert yfir kynjahlutföllin ætla ég að víkja næst að starfandi stjórnarformönnum. Fram kemur að ákvæði frumvarpsins byggi efnislega á niðurstöðum nefndar sem starfaði fljótlega upp úr 2000, var raunar skipuð í ársbyrjun 2004 og skilaði nefndin skýrslu einhverju seinna. Reyndar er spurning um hversu nauðsynlegt þetta ákvæði er og vil ég í því sambandi sérstaklega benda á umsögn Samtaka atvinnulífisins sem barst viðskiptanefnd. Breytingin sem lögð er til í frumvarpinu er sú að formaður félagsstjórnar megi ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem félagsstjórnin felur honum að vinna fyrir sig.

Þessi breyting er ákveðin viðbrögð við því að hér hefur verið sú þróun eða var, ég veit svo sem ekki hvort hún verður svo mikil eftir hrunið, en hún var augljós fyrir hrunið, að það færðist í aukana að stjórnarformenn væru í fullu starfi hjá því félagi sem þeir gegndu stjórnarformennsku í og gengu undir heitinu starfandi stjórnarformenn. Það er ekkert í gildandi lögum sem bannar þetta og ekkert sem bannar það að þetta sé fullt starf hjá stjórnarformanninum en það hefur þó almennt verið talið að stjórnarstarf sé hlutastarf. Yfir þetta er farið í umsögn Samtaka atvinnulífsins og á það bent að verkefni stjórnarformanns ráðist þá aðallega af stærð, eðli og umfangi fyrirtækis og ljóst að stjórnarmenn geti þurft að eyða það miklum tíma í stjórnarstörf að það jafngildi fullu starfi.

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins er bent á það sem ég hef þegar nefnt að þessar tillögur í frumvarpinu byggi á niðurstöðu nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis, sem var skipuð í ársbyrjun 2004, en jafnframt er vísað til 51. gr. dönsku hlutafélagalaganna sem hafi að geyma sams konar ákvæði, nema það sé þó þrengra því að það sé takmarkað við félög sem eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði. Einnig er bent á í umsögn Samtaka atvinnulífsins að Danmörk sé eina nágrannaríki okkar sem hafi lögfest ákvæði sem miði að því að takmarka starfssvið starfandi stjórnarformanna og jafnframt á það bent að þetta ákvæði hafi sætt nokkurri gagnrýni í Danmörku. Danska ákvæðið hafi verið sett í kjölfar hneykslismáls sem kom upp í Danmörku snemma á tíunda áratugnum í fyrirtæki þar sem starfandi stjórnarformaður hafði gengið svo inn á verksvið framkvæmdastjórnar að það var alls óljóst um skilin milli daglegra starfa annars vegar og eftirlits og stefnumótunar hins vegar.

Það var og hefur verið mjög umdeilt í Danmörku að löggjafinn skyldi bregðast við einu tilteknu tilviki með þeim hætti sem gert var, þ.e. að setja almenn lög, og þess vegna er þetta sérstaklega áréttað í umsögninni og má ekki skilja hana á annan hátt en að verið sé að gjalda varhuga við því að íslensk stjórnvöld og þar með íslenski löggjafinn feti í sömu fótspor. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins segir, með leyfi forseta:

„Dr. Erik Werlauff, prófessor við Álaborgarháskóla, hefur í gagnrýni sinni á danska ákvæðið haldið því fram að það skorti betri skýringar á ákvæðinu, þ.e. hvað átt sé við með því umfram það sem fyrir er í dönsku hlutafélagalögunum. Jesper Lau Hansen, prófessor við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla, hefur sömuleiðis gagnrýnt ákvæðið. Hann telur ákvæðið vera óskýrt þar sem með því sé reynt að koma til móts við pólitískar kröfur um að banna starfandi stjórnarformann sem sé andstætt því sem verið hefur viðurkennd venja. Niðurstaðan verði óskýr regla sem innihaldi margar undanþágur.“

Umsagnaraðilinn, þ.e. Samtök atvinnulífsins, og Guðrún Björk Bjarnadóttir hérðasdómslögmaður sem undirritar hana fyrir hönd þeirra segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Þessa sömu gagnrýni má heimfæra upp á það frumvarp sem hér er til umfjöllunar. Ekki kemur fram í ákvæði frumvarpsins eða athugasemdum þess hvað teljist til „eðlilegs hluta“ starfa stjórnarformanns. Er það því einkar óskýrt. Í frumvarpinu er síðan gerð sú undantekning að stjórnarmenn geti falið stjórnarformanni að vinna einstök verkefni fyrir stjórnina. Í athugasemdum með frumvarpinu er ekki skýrt hvers konar verkefni geti verið um að ræða. Undantekningarákvæðið er því einnig mjög óskýrt og óljóst og erfitt að sjá það ná tilgangi sínum.“

Niðurstaða Samtaka atvinnulífsins, þegar kemur að þessum breytingum um starfandi stjórnarformenn, er sú að ef menn vilja halda sig við þetta sé eðlilegt að takmarka ákvæðið við félög á skráðum markaði eins og hafi verið gert í Danmörku, enda megi segja að þar liggi hagsmunir almennings sem fjárfesta í slíkum félögum sem löggjafinn vilji þá vernda. Því benda samtökin á að eðlilegt sé að gefinn verði ákveðinn aðlögunartími.

Eins og ég skil breytingartillögu 2. minni hluta viðskiptanefndar, en í henni eru Birgir Ármannsson framsögumaður, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Árni M. Mathiesen og Jón Magnússon, þá hafa þau tekið upp þessa ábendingu frá Samtökum atvinnulífsins og leggja til að um starfandi stjórnarformenn sé þessi afmörkun gerð samanber 2. tölulið í breytingartillögum á þskj. 863.

Ég ætla þá að vinda mér í að fjalla um þriðja og síðasta atriðið, en ekki þó sísta atriðið, sem felst í þessari lagabreytingu, þ.e. að reyna að hafa áhrif á kynjahlutföll þegar kemur að stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga. Það er kunnara en frá þurfi að segja og á öllum að vera ljóst að kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga, sérstaklega hlutafélaga og þá hlutafélaga á markaði, að þar eru tölur mjög dapurlegar og hafa verið og breytast ekkert, sama hversu mikið um það er talað. Er þó skýrt í lögum um jafnan rétt karla og kvenna, nr. 10/2008, að atvinnurekendur eigi að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna í starfsemi sinni og á vinnumarkaði almennt. Í þeim lögum var meira að segja gengið svo langt — við ræddum þau raunar á þingi á síðasta ári — að setja þá skyldu á fyrirtæki og stofnanir, þar sem fleiri en 25 starfa, að þær ættu að setja sér jafnréttisáætlanir eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína og Jafnréttisstofa á að framfylgja því að þetta sé gert. Kannski er ekki komin mikil reynsla á það hvort þessar breytingar í lögunum frá 2008 hafi eitthvað að segja, ekki er nema röskt ár síðan þau gengu í gildi.

Með þeim ákvæðum sem kynnt eru í frumvarpinu er ákveðin viðleitni til þess að hvetja eigendur hlutafélaga til að gæta að kynjahlutföllum í stjórnum hlutafélagsins. Síðan eru lagðar ákveðnar tilkynningarskyldur á hlutafélögin, sem hv. þm. Birgir Ármannsson fór ágætlega yfir og ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um það nema tíminn leyfi það, en ég ætla að halda áfram að tala um það ákvæði að gæta skuli að kynjahlutföllum. Þetta er dæmigerð stefnuyfirlýsing, þetta er hvatning en maður leyfir sér að — eða réttara sagt maður hefur ákveðnar áhyggjur af því að þetta muni engu breyta. Eins og ég nefndi áðan er búið að tala um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga í mörg ár. Árlega eru birtar tölur um hversu margar konur og hversu margir karlar eru í stjórnum og árlega eru birtar tölur um hversu margir forstjórar eða framkvæmdastjórar fyrirtækja á markaði eru konur eða karlar. Hagstofan heldur þeim tölum saman og birtir þær reglulega og er sérstaklega vitnað til þess í athugasemdum með frumvarpinu að sérstakt verkefni er í gangi sem kallað er Jafnréttiskennitalan sem Rannsóknasetur vinnuréttar- og jafnréttismála við Háskólann á Bifröst hefur unnið síðastliðin ár. Það sýnir að breyting á kynjahlutföllum í stjórnum er mjög hæg og jafnvel höfum við farið aftur á bak á stundum.

Það segir þó um kynjahlutföllin í þessari yfirlýsingu eða markmiðssetningu, ég get ekki kallað það neitt annað, að bæta við 1. mgr. 63. gr. laganna og 1. mgr. 65. gr. laganna nýjum málsliðum sem hljóða svo, með leyfi forseta:

„Einnig skal gætt að kynjahlutföllum í stjórnum annarra hlutafélaga.“

Í 65. gr. er það:

„Gætt skal að kynjahlutföllum við ráðningu framkvæmdastjóra …“ — Þetta snýr sem sé annars vegar að stjórnunum og hins vegar að framkvæmdastjóranum.

Í skýringum segir að markmiðið með þessu sé að stuðla að jafnari hlutföllum kvenna og karla í áhrifastöðum í hlutafélögum og einkahlutafélögum með auknu gagnsæi og greiðari aðgangi að upplýsingum.

Síðan eru þessar tilkynningarskyldur sem hv. þm. Birgir Ármannsson fór svo ágætlega yfir, en ég ætla bara rétt að segja að ég sé ekki tilganginn í því af hverju verið er að leggja þessar auknu tilkynningarskyldur á hlutafélög, ég tala nú ekki um þegar kemur að einkahlutafélögum, enda er í nefndaráliti 1. minni hluta viðskiptanefndar bent sérstaklega á það að með slíkum skyldum sé verið að setja of víðfeðma upplýsingagjöf á hendur félögunum og verið sé að auka skrifræðið.

Í áðurnefndri umsögn Samtaka atvinnulífsins sem ég hef þegar nefnt er bent á að það beri að tilkynna til hlutafélagaskrár breytingar á stjórnum. Við erum svo heppin á Íslandi að búa við nafnakerfi á einstaklingum að það leynir sér ekki hvort einstaklingurinn er karl eða kona. Með því að tilkynna til hlutafélagaskrár hvaða einstaklingar sitja í stjórn félags er hlutafélagaskrá hægur leikur, þ.e. að taka bara þær upplýsingar saman eða þá einhver af þeim aðilum sem þegar eru í því verkefni að halda utan um tölfræði á þessu sviði. Ég hef nefnt áður að Hagstofan gefur út rit, ég held að það sé gefið út árlega, Konur og karlar í áhrifastöðum, og síðan er það Rannsóknasetur vinnuréttar- og jafnréttismála við Háskólann á Bifröst. Það er því eiginlega algjörlega óskiljanlegt af hverju í þessu frumvarpi er verið að leggja þessar kvaðir á hlutafélög, ég tala nú ekki um einkahlutafélög, að tilkynna og segja að í stjórninni séu X margar konur og Y margir karlar þegar móttakandi tilkynningar um stjórnarmenn getur hreinlega skoðað þetta sjálfur og sett upp þá tölfræði. Enda leggja félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum til að þessum kvöðum verði aflétt og að þau atriði í frumvarpinu verði felld niður og hygg ég að það væri skynsamlegt ef á það væri fallist.

Áður en tími minn rennur út, virðulegi forseti, ætla ég að benda á að þó að ég sé svo sem í prinsippinu ekki á móti þessum fögru stefnuyfirlýsingum og áskorun um að jafna kynjahlutföll, þó að ég hafi ekki mikla trú á því að þau virki, skil ég ekki að þau skuli sett með nákvæmlega sama hætti inn í lögin um einkahlutafélög. Lög um einkahlutafélög eru allt öðru marki brennd en lögin um hlutafélög. Oftast er þar bara einn stjórnarmaður og lögin um einkahlutafélög voru sérstaklega sett til að gera fólki sem rekur lítil fyrirtæki hægara um vik. Áskoranir þar um að jafna sem mest kynjahlutföllin missa eiginlega marks vegna eðlis þeirra laga.