136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- gengisfall krónunnar.

[10:39]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Svar mitt til hv. þm. Ástu Möller er að hluta til svar til hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Sjálfstæðisflokkurinn stundar leik sem ég hélt að væri aflagður, (Gripið fram í: Nú?) hefði verið lagður af í lok kaldastríðsáranna, að þegar múrinn hrundi hefði sá málflutningur sem hér er hafður uppi verið lagður af.

Kaldastríðsáróðurinn, svart og hvítt, er hafður í frammi, skattahækkanir og lækkun launa glumdu hér í allan gærdag, orð eru slitin úr samhengi þegar þingmenn vita vel og vita betur hvað liggur að baki þeim orðum sem vitnað er til.

Sjálfstæðisflokkurinn og þær ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn starfaði með skildu allt eftir í rúst. (Gripið fram í.) Þjóðarbúið er núna á mjög viðkvæmu stigi. Ríkissjóður er skuldum vafinn. Við verðum sem þjóð að koma okkur fram úr þeim miklu erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir. Það verður ekki gert með þeim hætti sem Sjálfstæðisflokkurinn segir núna, það eigi ekki að lækka skatta, það eigi eingöngu að fjölga störfum.

Ég get svarað spurningunni hvað varðar hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann er þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, (Gripið fram í.) hann vinnur samkvæmt okkar hugmyndum, hann vinnur í anda samráðs og samstarfs, hann vinnur með trúnaðarmönnum stéttarfélaganna, hann vinnur með því að leita lausna, hann setur á starfsdaga með heilbrigðisstarfsmönnum. Það hefur aldrei komið til tals (Forseti hringir.) að lækka taxta. Það hefur komið til tals (Forseti hringir.) að þeir sérfræðingar sem eru á ofurlaunum taki þátt í því (Forseti hringir.) að spara og leggja eitthvað af sínum ofurlaunum fyrir lítið vinnuframlag.