136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- gengisfall krónunnar -- orð heilbrigðisráðherra.

[10:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé mikilvægt að við höldum áfram umræðu um efnahagsmálin og hvernig einstakir stjórnmálaflokkar ætla að standa að málum fyrir þær kosningar sem í hönd fara. Við vitum öll hvernig efnahagshrunið hefur leikið íslenskt samfélag, aukið skuldir ríkisins og aukið atvinnuleysi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið mikinn að undanförnu við að reyna að beina sjónum að öðrum stjórnmálaflokkum en hann hefur hins vegar engu svarað sjálfur um það hvernig hann ætlar að standa að málum, hverjar séu lausnir Sjálfstæðisflokksins ef hann hefur einhverjar. Ég tel mikilvægt að fá svör við því og vil þess vegna spyrja formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur: Hvaða þjónustu ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að hækka? Hvaða þjónustugjöld ætlar hann að hækka? Hann hefur sagt að hann ætli ekki að standa fyrir neinni skattahækkun en hvaða þjónustugjöld ætlar hann að hækka? Hvaða ný þjónustugjöld ætlar hann að leggja á? Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að hefja nýja rússíbanareið í einkavæðingu? Hversu mörgum störfum þarf að segja upp samkvæmt stefnu Sjálfstæðisflokksins? Verða það hjúkrunarfræðingar eða ljósmæður eða framhaldsskólakennarar? Hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að auka tiltrú og traust á stjórnmálum? Mun Sjálfstæðisflokkurinn opna allt sitt bókhald vegna kosninga? Mun hann opna bókhald frambjóðenda sinna vegna prófkjara? (Gripið fram í: Það er í lögum.) Og hvenær ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að biðja þjóðina afsökunar á afglöpum sínum?