136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- gengisfall krónunnar -- orð heilbrigðisráðherra.

[10:47]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég bið hv. þm. Árna Þór Sigurðsson um að kynna sér þau lög sem gilda um fjármál stjórnmálaflokka og jafnframt um fjármál þeirra sem fara í prófkjör. Um það gilda lög á Íslandi.

Það er alveg makalaust hvernig Vinstri grænir reyna að komast undan þeim orðum sem hafa fallið um það að nú eigi að ráðast í skattahækkanir og launalækkanir. Það er eina stefnan sem hefur komið frá Vinstri grænum. Eina stefnan sem þeir hafa getað kynnt til sögunnar eru skattahækkanir og launalækkanir. Þetta er stefna VG.

VG ákvað að fara í samstarf með Samfylkingunni sem bar ábyrgð á bankamálum þegar hrunið varð hér á fjármálamörkuðum. Nú hlýtur það að vera spurningin til VG: Hvernig ætla þeir að vinna okkur út úr kreppunni sem leiddi af þessu? Getur hv. þm. Árni Þór Sigurðsson svarað því? Eða eigum við að vinna okkur út úr kreppunni með skattahækkunum? Er það málið? (Gripið fram í: Það eru engin svör.)

Úrræðaleysi Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í þessu ríkisstjórnarsamstarfi er æpandi. Þeir treysta sér ekki til að ræða hér fjárfestingarsamning um álverið í Helguvík. (Gripið fram í.) Af hverju skyldi það vera? Á ekki bara að ráðast í það að vinna þjóðina út úr kreppunni með skattahækkunum? Það er stefna VG. En atvinnumálastefnan er ekki til. (Gripið fram í: Hver voru svörin?) Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson ætti að svara því (Forseti hringir.) hver atvinnustefna VG er.