136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- gengisfall krónunnar -- orð heilbrigðisráðherra.

[10:52]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil fá að taka hér undir athugasemdir sem komu fram hjá hv. þingmönnum Ástu Möller og Sigurði Kára Kristjánssyni. Í gær og í fyrradag fóru tveir ráðherrar frá Vinstri grænum mjög óvarlega fram. Í fyrsta lagi sagði hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir í þætti í sjónvarpinu að lækka ætti laun opinberra starfsmanna. Svona yfirlýsingar eru ekki gefnar af ráðherrum við þær aðstæður sem við erum í í dag. Það er fullkomið ábyrgðarleysi að koma með svona einhliða yfirlýsingar. Svona umræður eiga að fara fram á milli aðila vinnumarkaðarins. Ég lýsi furðu minni á því að hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir hafi slengt þessu framan í þjóðina í sjónvarpsþætti. Þetta er mjög ábyrgðarlaust.

Ég vil líka segja að orð hæstv. heilbrigðisráðherra í gær á málþingi Samtaka heilbrigðisþjónustufyrirtækja voru hæstv. ráðherra ekki til sóma. Þar var gengið allt of langt fram í því að kasta rýrð á störf lækna. Þar var farið fram með dylgjur og það var hæstv. ráðherra ekki til sóma. Íslenskt efnahagslíf er í mikilli kreppu núna og hæstv. ráðherrar verða að fara varlega með vald sitt. Þeir geta ekki, þó að flokkar þeirra mælist kannski vel í skoðanakönnunum, sagt hvað sem er. Vald ber að umgangast af virðingu og forðast það að koma málinu í meiri hnút en þörf er á. En báðir þessir hæstv. ráðherrar, Katrín Jakobsdóttir og Ögmundur Jónasson, hafa komið málum í meiri hnút en þörf var á með mjög óvarlegum og óábyrgum yfirlýsingum og ég geri athugasemd við það.