136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[11:08]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nú vill svo til að fé í starfslaunasjóðunum nægir til þessa verks í tvö ár þannig að það er ekki fyrr en á árinu 2012 sem hv. þm. Pétur H. Blöndal þarf að hafa áhyggjur af þessu á fjárlögum. Mér er það mikil ánægja að fá að vera með í því að greiða atkvæði með þessu frumvarpi um fjölgun listamannalauna í fyrsta sinn í 13 ár og einmitt á þeim tímum sem það er bæði skynsamlegt og sanngjarnt að gera þetta.

Jafnframt er það mér mikil furða að Sjálfstæðisflokkurinn skuli einmitt á sömu tímum koma í bakið á varaformanni sínum sem ekki er hér staddur, Þorgerði K. Gunnarsdóttur, sem undirbjó þetta frumvarp og studdi það, a.m.k. í persónusamtali við mig fyrir 3–4 vikum, og hann skuli ætla sér núna að hefja popúlíska herferð þvert á vilja fyrrverandi menntamálaráðherra, hv. þingmanns, gegn listamönnum í landinu. (Gripið fram í: Hvar er varaformaður Sjálfstæðisflokksins?)