136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[11:09]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég mótmæli því alfarið að við sem greiðum atkvæði gegn þessu frumvarpi séum á móti listamönnum í landinu [Háreysti í þingsal.] eins og hv. þm. Mörður Árnason hélt fram. (Gripið fram í: … á móti …)

Með þessu frumvarpi erum við að fjölga einstaklingum sem taka listamannalaun hjá ríkinu og við þær aðstæður sem uppi eru í efnahagslífinu tel ég að ríkissjóður hafi ekki efni á að fjölga listamönnum, enda sýnir það sig í frumvarpinu að það á að fjármagna þessar launagreiðslur með lántökum. Það eru ekki til peningar fyrir þessum listamannalaunum nema sá fiskur liggi undir steini að Vinstri hreyfingin – grænt framboð ætli sér að fjármagna þau með því að lækka laun opinberra starfsmanna [Hlátur í þingsal.] eins og hæstv. menntamálaráðherra hefur boðað og hækka skatta á heimilin í landinu sem er það síðasta sem heimilin í landinu þurfa núna til að fjármagna (Forseti hringir.) mál eins og þetta. Við slíkar aðstæður get ég ekki greitt þessu frumvarpi atkvæði mitt. (Gripið fram í.)