136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

barnaverndarlög og barnalög.

19. mál
[11:14]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að verið er að afgreiða þessar lagabreytingar sem eru í samræmi við endurskoðun á barnaverndarlögunum sem stendur nú yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Ég þakka frumkvæði félags- og tryggingamálanefndar fyrir að taka upp þetta mál, lögfesta þingmannamál Kolbrúnar Halldórsdóttur í svipaða veru sem nefndin gerði ákveðnar breytingar á í kjölfar hæstaréttardóms í vetur. Sömuleiðis er verið að tryggja að barnaverndaryfirvöld fái að vera viðstödd yfirheyrslur á börnum. Þetta er mjög mikið framfaramál og ég þakka hv. félags- og tryggingamálanefnd fyrir frumkvæði í málinu og fagna því aftur að þessar miklu réttarbætur til handa börnum séu að verða að lögum.