136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

viðvera ráðherra.

[11:28]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í máli annarra félaga minna í Sjálfstæðisflokknum stóð til að setja þetta mál á dagskrá kl. hálftvö í nótt. Við bentum á að það væri algerlega óviðunandi að gera það af því að hæstv. heilbrigðisráðherra var ekki í salnum þá og engin von til þess að hann væri á leiðinni.

Eins og hér hefur verið bent á er þetta frumvarp um sjúkraskrár veigamikið frumvarp sem gæti þýtt mjög mikla möguleika á hagræðingu í heilbrigðiskerfinu ef í það yrðu settir fjármunir. Talað er um að það þurfi að hagræða og spara í heilbrigðiskerfinu og þess vegna hlýtur það að skipta verulegu máli hver áform hæstv. heilbrigðisráðherra eru varðandi fjárveitingar í það kerfi sem við erum að leggja til að komið verði á. Það skiptir öllu að hæstv. heilbrigðisráðherra taki þátt í þessari umræðu og komi ekki þegar honum hentar heldur þegar umræðan byrjar. Ég árétta þær ábendingar (Forseti hringir.) að eðlilegt sé að geyma umræðuna þangað til hann kemur í salinn.