136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

viðvera ráðherra.

[11:29]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram er þetta stórt og mikið frumvarp sem hefur verið til meðhöndlunar í hv. heilbrigðisnefnd þar sem haldið hefur verið vel á málum af hálfu hv. formanns nefndarinnar, Þuríðar Backman. En ég verð líka að ítreka það að ef hæstv. forseti er ekki tilbúinn til að fresta umræðunni núna tek ég orð hans svo að hann muni gera það eftir framsögu formanns nefndarinnar hafi hæstv. heilbrigðisráðherra ekki látið sjá sig í salnum. Reyndar hefur vakið athygli að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ekki oft látið sjá sig í þingsölum síðan hann tók við embætti, það er eins og hann forðist að vera hér til svara. Það er mjög sérkennilegt að sjá ekki hæstv. heilbrigðisráðherra hér þegar eftir því er kallað að hann komi og svari því hvernig hann ætli ná í fjármuni til að hrinda þessu frumvarpi í framkvæmd og hvað hann áætli að það spari á móti þegar það er komið í gagnið.