136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[12:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Ég hygg, hæstv. forseti, að samhengið hafi verið spurning um hvort viðkomandi, í þessu tilviki hæstv. ráðherra, teldi æskilegra eða betri valkost að missa vinnuna eða að kjörin rýrnuðu og að svarið hafi verið á þá lund að frekar vildi hún halda vinnunni en að kjörin rýrnuðu. Það er enginn að tala um að lækka laun í kjarasamningum. Það er bara misskilningur hjá hv. þm. Ástu Möller ef hún telur að einhver sé að tala um það. Lögð hefur verið rík áhersla á það í allri umræðu við stjórnendur heilbrigðisstofnana af minni hálfu að virða kjarasamninga.

Það sem ég hef hins vegar gert er að taka það upp við sérfræðilækna sem áttu að fá hækkun upp á tæp 9% 1. apríl, að þeir skytu þeirri ákvörðun á frest, að við frestuðum henni til 1. júní þannig að okkur gæfist ráðrúm til að skoða þau mál í samhengi við kjaraþróun almennt í landinu. Þetta er það eina sem gert hefur verið sem lýtur beinlínis að samningum. Hins vegar geta kjörin rýrnað með skipulagsbreytingum af ýmsu tagi og í þá átt eru menn að horfa, en ég hef lagt áherslu á að við allar slíkar skipulagsbreytingar verði hlíft þeim sem eru á lágum tekjum eða millitekjuhópum eftir því sem nokkur kostur er. Og að sjálfsögðu á ekki undir neinum kringumstæðum að rýra samningsbundin kjör, það er enginn að tala um það, ekki nokkur maður. Ég vil efla kjörin, ég vil bæta kjörin hjá fólki og allt mitt starf gengur út á það.

Í tíð fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra stóð til að leggja fæðingar af á Suðurlandi og í Keflavík. (Forseti hringir.) Það verður ekki gert, horfið var frá þeirri ráðstöfun að leggja fæðingar af á þessum stöðum.