136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[12:51]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér þegar ég hlusta á hæstv. heilbrigðisráðherra ræða um orð hæstv. menntamálaráðherra hvort hann sé í raun og veru að gera hæstv. menntamálaráðherra ómerkan eða ekki. Því þetta er talað í einhverjum hálfkveðnum vísum og gefið til kynna að einhverjar viðræður hafi farið fram og hann hafi talað við fólk sem sé sátt við málin á eftir því það lá alveg skýrt fyrir hjá hæstv. menntamálaráðherra að hún vildi bæði lækka laun og hækka skatta.

Ég óska eftir því að hæstv. heilbrigðisráðherra tali skýrar um þetta mál og hvort hann sé að segja okkur að hæstv. menntamálaráðherra, varaformaður Vinstri grænna hafi farið með rangt mál þegar hún sagði að þetta væri leiðin sem ætti að fara, þ.e. að lækka laun og hækka skatta og lækka laun hjá opinberum starfsmönnum. Enda sáum við strax í gær viðbrögð frá BHM og nú segir hæstv. ráðherra að hann hafi átt fund með fulltrúum þeirra í morgun og allir hafi farið sáttir frá þeim fundi. Ég held að hæstv. ráðherra skuldi okkur nánari skýringar á því hvað þeim fór á milli og hvernig þetta mál stendur í raun og veru.

Síðan er það hitt sem kom fram í Morgunblaðinu í morgun, virðulegi forseti, þar sem formaður Læknafélagsins telur ummæli hæstv. heilbrigðisráðherra ósmekkleg þegar hann gefur til kynna að svonefnt ávísanakerfi ýti undir oflækningar og það sé svo að það sé ekki hægt að treysta læknum á þann veg að þeir fari með fjármuni sem þeir geta aflað sér á þann hátt að það sé ekki verið að gera einhverjar aðgerðir á fólki bara til að hagnast á því.

Þetta eru furðulegar yfirlýsingar af hendi hæstv. heilbrigðisráðherra og það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Ástu Möller að þetta sætir gagnrýni og kemur greinilega fram mikil reiði af hálfu lækna vegna þessara ummæla hæstv. ráðherra sem miðar greinilega að því að gera lækna tortryggilega (Forseti hringir.) og grafa undan trausti fólks á þeim.