136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[12:55]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra hefði átt að vera hér í gærkvöldi þegar við ræddum um stöðu fjármálafyrirtækja og breytingar á lögum vegna þeirra. Þá var m.a. farið yfir ástæður bankahrunsins og verið að greina þær. Hæstv. ráðherra hefði betur hlustað á það, þá hefði hann vitað að orð hans um ásakanir á hendur Sjálfstæðisflokknum út af þeim ósköpum sem yfir þjóðfélagið hafa gengið eru ekki réttar og standast ekki þegar litið er á önnur frumvörp sem við erum með til meðferðar í þinginu.

Hæstv. heilbrigðisráðherra lætur hins vegar hjá líða að svara spurningu minni sem laut að yfirlýsingum varaformanns Vinstri grænna um að það bæri að hækka skatta og lækka laun. Hæstv. ráðherra segir að hann hafi verið á fundum víðs vegar og talað fallega við umbjóðendur sína, hvort sem hann var þar sem ráðherra eða formaður BSRB í fríi. Það veit ég ekki.

En umrædd yfirlýsing féll á mánudaginn var og nú er fimmtudagur. Hefur hæstv. ráðherra farið í þá ferð sem hann var að lýsa eftir að yfirlýsing hæstv. menntamálaráðherra varaformanns Vinstri grænna féll um að það væri stefnan að lækka laun og hækka skattana?

Ég leyfi mér að draga það í efa að hæstv. ráðherra hafi farið. Og hvaða útskýringar hefur hann gefið? Af hverju getur hann ekki sagt okkur hvaða útskýringar hann hefur gefið hæstv. ráðherra á þessum ummælum? Og hvernig hefur hann túlkað ummæli varaformanns flokksins á stöðunni og stefnu hans, þ.e. að lækka laun og hækka skatta? Það er þetta sem við viljum fá að vita en höfum ekki fengið nein svör við þótt við höfum spurt þráfaldlega um þetta undanfarna daga frá því að þessi fundur var haldinn, sem að vísu var víst á þriðjudagskvöld en ekki mánudagskvöld. Það er því enn þá skemmri tími liðinn frá því að yfirlýsingin var gefin þar til ráðherrann kemur nú og segir að hann hafi rætt við fjölda fólks. Hvað hefur hann sagt við þetta fólk? Hefur hann sagt að hæstv. menntamálaráðherra hafi (Forseti hringir.) sagt einhverja bölvaða vitleysu á þessum fundi?