136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:08]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist að við hv. þm. Pétur Blöndal verðum seint sammála um þetta. En það er svo sem allt í lagi. Þá erum við bara sammála um að vera ósammála. Ég vil árétta að við erum að tala um sitt hvorn hlutinn. Frumvarp til laga um sjúkraskrár snýst um að setja upp regluverk um það hvernig við skráum sjúkraskrár í tölvum. Sjúkraskrár eru færðar, hafa verið færðar og hérna erum við að lögfesta að það skuli færa þær og við erum jafnframt að lögfesta að það sé hægt að gera í tölvum, þ.e. með rafrænum hætti og við erum líka að lögfesta það að hægt sé að tengja tölvukerfi fleiri en einnar stofnunar eða heilbrigðisstarfsmanns og við erum líka að lögfesta að það megi sameina sjúkraskrárkerfi fleiri en einnar stofnunar eða sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanns. Allt þetta er unnið í þágu sjúklinga vegna meðferðar sjúklinga þegar þeir leita til heilbrigðiskerfisins.

Gagnagrunnurinn var af allt öðrum toga. Hann fólst í því að það átti að fara í sjúkraskrárnar, endurgera þær í kerfi hjá þriðja aðila, fyrirtæki úti í bæ sem fékk einkarétt og borgaði stóra peninga fyrir til að koma þessu upp. Tilgangur gagnagrunnsins var að setja upp þetta kerfi úti í bæ. Við erum hér bara að setja umgjörð um nauðsynlega skráningu upplýsinga í þágu sjúklinga. Síðan auðvitað breytist aðgangur að þessum sjúkraskrárupplýsingum vegna til dæmis vísindarannsókna ekkert með þessu frumvarpi. Hann er nákvæmlega sá sami og hann var áður. Það er vísað í lögin um réttindi sjúklinga og raunar kemur fram í frumvarpinu að það er endurskoðun á þeim ákvæðum. Ég árétta því að að minni hyggju er alger misskilningur að halda að þetta frumvarp eigi nokkuð sameiginlegt með gagnagrunnslögunum.