136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Niðurstaðan er sú sama og það er meira að segja meira í þessum grunni en átti að vera í gagnagrunni Íslenskrar erfðagreiningar á sínum tíma. Niðurstaðan er sú sama. Öllum upplýsingum er hrúgað saman í einn grunn, í eina skrá þar sem hægt er að fá upplýsingar um manninn frá öllum hliðum. Eftir einhver ár fara menn örugglega að geyma líka erfðaupplýsingar þegar læknar fara að geta skannað erfðaefnið um leið og sjúklingur kemur til þeirra til að geta fundið ýmsa sjúkdóma. Niðurstaðan er sú sama. Þetta er stór grunnur, allur á einni hendi. Eigandinn er einn, ríkið reyndar, og ríkisstarfsmenn eru fólk bara eins og starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar. Ef sett eru sambærileg ákvæði um verndun gagnanna gagnvart þeim sem komast að grunninum þá er það nákvæmlega eins. Þó er einn munur á, herra forseti. Hver skyldi sá munur vera? Eftirlitsaðilinn í þessu dæmi er líka ríkið, er sami aðilinn og á þetta. Svo var ekki með grunn Íslenskrar erfðagreiningar því þar var eftirlitsaðilinn ríkið en eigandinn var hlutafélag og þá mundi ég telja að eftirlitið sé enn þá öruggara og skotheldara heldur en þegar sami aðilinn á að fara að tékka af sjálfan sig sem eiganda að gögnunum.