136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:29]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér er mjög brugðið. Ég er að koma af fundi stjórnarskrárnefndar þar sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram breytingartillögu á auðlindaákvæðinu og sú tillaga felur það í sér að gríma Sjálfstæðisflokksins er fallin. Loksins er gríma Sjálfstæðisflokksins fallin í stjórnarskrármálinu og allt talið um stjórnlagaþing var bara fyrirsláttur.

Sjálfstæðismenn lögðu til í nefndinni að setningin sem er núna inni í tillögunni og er svona, virðulegi forseti:

„Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi. “

Sjálfstæðisflokkurinn lagði til að þessi setning gufaði upp. Hún er ekki fyrir hendi í tillögum sjálfstæðismanna. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að fella grímuna hér, virðulegi forseti. Þetta er stóri (Forseti hringir.) sannleikurinn á bak við stjórnarskrármálflutninginn (Forseti hringir.) sem er búinn að taka hér (Forseti hringir.) fjölmarga daga frá öðrum (Forseti hringir.) störfum.