136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:37]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um fundarstjórn):

Já, virðulegi forseti. Sjálfstæðismenn eru agalega hissa á því að manni sé misboðið. (Gripið fram í: Já.) Þeir hafa staðið hér og þruglað meira eða minna fram og til baka um stjórnarskrána í marga, marga daga. Svo kemur hið rétta í ljós á fundinum hjá okkur rétt áðan. Þar kemur Sjálfstæðisflokkurinn með það útspil sem hefur sjálfsagt alltaf legið á bak við í þessu máli. Útspilið er í auðlindunum. Það sem Sjálfstæðisflokkurinn passar sig á er að það vanti þessa setningu inn sem er grundvallaratriði: „Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.“ Af hverju er þetta látið gufa upp, virðulegi forseti? Af hverju? Ég held að það sjái það allir.

Þessi tillaga þeirra grefur líka undan 1. gr. í fiskveiðistjórnarlögunum en þar segir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Það stendur líka að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndi ekki eignarrétt eða (Forseti hringir.) óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. (Forseti hringir.) Nú er gríma Sjálfstæðisflokksins loksins fallin í málinu og það er rétt að þjóðin átti sig á því.