136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég get ekki annað en komið hingað til að taka undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Nú kemur Sjálfstæðisflokkurinn til dyranna eins og hann er klæddur. Nú er hann búinn að varpa af sér hamnum og kemur fram fyrir sjónir þingsins eins og hann er með sinn raunverulega tilgang fyrir því málþófi sem hann hefur staðið í linnulaust vikum saman. Sjálfstæðisflokkurinn hefur beitt þingið ofbeldi. Til hvers? Jú, til þess að koma út setningu í stjórnarskrárfrumvarpinu þar sem beinlínis er lagt til að bannað verði að það megi selja eða láta varanlega af hendi náttúruauðlindir í þjóðareign. Hér er Sjálfstæðisflokkurinn með grímulausum hætti að ganga erinda stórútgerðarinnar. Hann er að vernda hagsmuni sægreifanna og hann hefur haldið þinginu í gíslingu í þrjár vikur til að ná fram þessu marki, að vernda hagsmuni þeirra sem vilja eignast þjóðareignina. Sjálfstæðisflokkurinn sýnir það svart á hvítu að hann virðist bersýnilega vera reiðubúinn til að láta af hendi eða heimila að selt verði með varanlegum hætti það sem við höfum viljað kalla náttúruauðlindir í þjóðareign. Þetta er mergurinn málsins.