136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[17:26]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann og formann heilbrigðisnefndar varðandi 15. gr. sem verið hefur til umræðu í dag og mjög gagnlegar ábendingar sem komið hafa frá hv. þm. Dögg Pálsdóttur sem var formaður þeirrar nefndar sem samdi þetta frumvarp. Það vildi þannig til að ég var ekki á þeim fundi þar sem þessi sérstaka 15. gr. var til umræðu af ákveðnum ástæðum en ég er á nefndarálitinu og var því viðstödd þegar málið var afgreitt úr nefndinni. Ég fagna því að hv. þingmaður hefur kallað málið aftur inn til nefndar til þess að skoða það nánar, þær athugasemdir sem komu frá hv. þingmanni þar sem hún benti m.a. á tilvísun sem kemur fram í breytingartillögunni þar sem segir, með leyfi forseta:

„Um aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings fer samkvæmt ákvæðum laga um réttindi sjúklinga.“

Það kemur reyndar fram í nefndarálitinu að tilvísunin er fremur óljós þar sem því er beint til þingsins að endurskoða ákvæði laga um réttindi sjúklinga hvað varðar sjúkraskrá. En þá velti ég því einmitt fyrir mér hvort það væri e.t.v. rétta nálgunin að gera þær breytingar á þessu frumvarpi sem síðan yrðu teknar upp í lög um réttindi sjúklinga, þannig að yfirstandandi þing mundi gefa leiðbeiningar um hvernig taka ætti á þessu máli í lögum um réttindi sjúklinga sem eru, (Forseti hringir.) eins og bent er á, ófullkomin.