136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[17:44]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda á þetta sem blasir við þegar hlutirnir eru settir í samhengi, að þarna er með þeim breytingum sem nefndin leggur til verið að fara í hringi. Það er verið að vísa í ákvæði sem sama sem á eftir að fella út. En í sjálfu sér er reyndar ekki verið að vísa í neina sérstaka grein breytingartillögunnar heldur almennt um ákvæði laga um sjúkraskrár. En sá kafli, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, er felldur út, sá kafli sem fjallar sérstaklega um sjúkraskrár.

Því vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér í því að til þess að laga þetta þurfi hreinlega að orða greinina með þeim hætti að það komi ótvírætt fram hvers konar aðgangur skuli vera að sjúkraskrá látins einstaklings. Með hvaða hætti hann skuli vera. Þessi tilvísun, sem náttúrlega gengur ekki samkvæmt því sem bent hefur verið á, sé tekin út. Hvort hann telji að það þurfi að gera það með þessum hætti eða hvort hann sjái einhverja aðra leið í því hvernig við getum leyst þetta mál.

En það er alveg ljóst að nefndin þarf að taka þetta inn til skoðunar á ný og það hefur þegar verið boðaður fundur eins og kom fram hjá hv. formanni nefndarinnar í kvöldverðarhléi. Ég held að við hljótum að skoða þetta nánar og koma með nýjar breytingartillögur í þessa veru.