136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[18:02]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki betur en að þessar stéttir hafi komið til tals þegar við ræddum um þessa starfsmenn. Í 6. gr. frumvarpsins eru tilgreind þau lágmarksatriði sem skuli færð í sjúkraskrá. Síðan er bætt þar við að kveða eigi nánar á um færslu sjúkraskrárupplýsinga í sjúkraskrá með reglugerð. Við erum komin á dálítið grátt svæði þegar við tölum t.d. um sjúkrahúspresta en það er alveg hugsanlegt að einhverjar upplýsingar frá þeim geti skipt máli. Ég tel að þetta sé eitt af því sem þurfi að höndla í reglugerð um hvað frekar megi skrá.

Þá komum við að því að það er alveg klárt að 5. gr. mundi heimila þessum stéttum slíkar færslur enda væru þær búnar að undirgangast trúnaðar- og þagnarskyldur og ég veit ekki betur en t.d. sjúkrahúsprestar geri það. Síðan er það líka alveg skýrt í 13. gr. að þar er gert ráð fyrir að aðrir en heilbrigðisstarfsmenn sem koma að meðferð geti farið í skrána og hafi aðgang að henni.

Í raun og veru má segja að gert sé ráð fyrir því í frumvarpinu að allir sem koma að meðferð sjúklings með einum eða öðrum hætti, hvort sem það eru heilbrigðisstarfsmenn eða aðrir starfsmenn í heilbrigðisþjónustu, hafi aðgang að sjúkraskránni innan þeirra marka sem starf þeirra er í þágu sjúklingsins. Mjög mikilvægt er að muna það að aðgangur að sjúkraskrá er alltaf takmarkaður við það sem verið er að vinna í þágu sjúklings. Ef vinna þeirra stétta sem hv. þm. Ásta Möller nefndi er sannanlega í þágu sjúklingsins, og ég efast ekki um að svo sé, getur opnast fyrir þeim aðgangur að sjúkraskrá með þeim skilyrðum sem lögin setja og að undangengnum þeim þagnar- og trúnaðarskyldum sem viðkomandi þarf að undirgangast.