136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[18:24]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólöf Nordal kom inn á mikilvæg málefni er snerta skil milli laga og reglugerða, hvað við setjum í lög og hvað við setjum í reglugerðir. Ábendingar hennar eru hárréttar um að stundum er nauðsynlegt að hafa ákveðna hluti í lögum en ekki að framkvæmdarvaldið hafi nánast óbundnar hendur um það hvernig útfæra megi hlutina í reglugerð.

Það sem réð því þegar við vorum að semja frumvarpið um hvað við skrifum í sjúkraskrá var meginatriðið það sem kemur mjög skýrt fram og ítarlega er rakið í skýringum með 6. gr., að færa eigi minna en meira, það var fyrsta reglan, og einungis eigi að færa í sjúkraskrá þær upplýsingar sem eru nauðsynlegar vegna meðferðar sjúklingsins. Það er skýrt undirstrikað í skýringunum að ekki er sjálfgefið að allar upplýsingar sem sjúklingurinn gefur rati í sjúkraskrána. Mjög mikilvægt er að hafa þetta í huga.

Þegar ég svaraði hv. þm. Ástu Möller um hvort eitthvað kynni að vera í samskiptum annarra stétta en heilbrigðisstétta sem starfa á sjúkrahúsum vísaði ég í að það yrði þá að koma í reglugerð því ég tel að það sé þá af þeim toga og ef það snertir ekki meðferðina kemur það auðvitað ekki.

Um það hvort hægt sé að loka sjúkraskrám vil ég árétta að í 7. gr. frumvarpsins er mjög skýrt að sjúklingur getur lokað sjúkraskrá sinni og raunar telja ýmsir sem komið hafa með athugasemdir að of langt sé gengið. Og síðan er m.a. bent á að ef sjúklingur lokar henni algjörlega sé það jafnvel höfnun á meðferð. En í 2. mgr. 13. gr. er líka viðbótarheimild ef um er að ræða sérstaklega viðkvæmar sjúkraskrárupplýsingar sem sjúklingurinn þá skilgreinir. (Forseti hringir.) Passað var mjög kirfilega upp á öll þessi atriði og sjúklingar (Forseti hringir.) hafa óskoraðan rétt, enda er sjálfsákvörðunarréttur þeirra virtur.