136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[18:31]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur fram í frumvarpinu og í athugasemdum við 24. gr. um reglugerðarheimildina, að þar er t.d. vitnað til 2. mgr. og 6. gr. og fleiri greina þar sem verið er að þrengja að reglugerðarvaldinu. Það er alveg rétt.

En ég velti fyrir mér hvort kannski væri ástæða til að ítreka sérstaklega, ef til stendur að taka þetta mál inn á milli 2. og 3. umr., að í framhaldsnefndarálitinu kæmi líka fram að með slíka reglugerðarheimild skuli fara af mikilli gát. Vegna þess að alveg eins og kom fram hjá hv. þm. Dögg Pálsdóttur þá skulum við fara mjög gætilega þegar við fetum það einstigi sem þar er verið að fara. Þetta er mjög merkilegt mál. Hér er verið að byggja á þeirri umræðu sem hefur verið í þjóðfélaginu um nokkurra ára skeið, eins og ég nefndi í ræðu minni, ekki síst vegna þeirra deilna sem urðu um deCode-málið á sínum tíma og í raun og veru þá þróun sem það mál þurfti að fara í gegnum áður en það gat orðið að lögum sem var ósköp eðlilegt vegna þess að það var farið mjög hratt með fólk inn í þá umræðu. En ég held að það sé afskaplega mikilvægt í máli sem þessu þegar menn hafa vandað svo mjög til verka, að það sé ítrekað og að í raun og veru sé sá varnaglinn settur líka í nefndarálit að með reglugerðina skuli fara með mikilli gát. Það sé frekar þannig að ef vafi leikur á þá verði að breyta lögum til samræmis við þann vilja sem gæti hugsanlega komið fram.

Mér finnst þetta skipta gífurlega miklu máli. Þarna eru óskaplega mikilvægar og miklar persónuupplýsingar á ferðinni og það skiptir miklu máli að allir geti treyst því að þarna sé farið eins rólega og hægt er í þessu máli.