136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[18:33]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Möller ræddi áðan um athugasemdir vísindasiðanefndar. Það gafst ekki tóm til að svara til hlítar vangaveltum hennar um hvort gagnagrunnar sem munu vera til staðar eigi að falla undir þessa nýju löggjöf um sjúkraskrár. Ég hef ekki haft tóm til að kynna mér þetta til fulls en í fljótu bragði sé ég ekki betur en að þeir gagnagrunnar sem vísindasiðanefnd vísar til hljóti að vera þeir gagnagrunnar sem er gert ráð fyrir að séu fyrir hendi og megi stofna á grundvelli laga um landlækni, 2. mgr. 8. gr. þeirra laga.

Þar er gert ráð fyrir að það séu heilbrigðisskrár sem landlæknir geti skipulagt og honum sé heimilt að færa. Það eru fæðingarskrár, skrá um hjarta- og æðasjúkdóma, skrá um taugasjúkdóma, krabbameinsskrá, slysaskrá, vistunarskrá heilbrigðisstofnana, samskiptaskrá heilsugæslustöðva, samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga.

Ég held að þarna hljóti að vera a.m.k. einhver skörun á milli og þá sé eðlilegra að líta á að þessir grunnar séu af þeim toga heldur en að þetta séu grunnar sem falli undir sjúkraskrár. Ég held að við þurfum að varast það að fara of langt í að fella einhverja gagnagrunna sem ekki eru í raun sjúkraskrá, þó að það séu grunnar sem byggja á upplýsingum úr sjúkraskrám, undir sjúkraskrárlögin sem vonandi verða.

Það er nefnilega mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að hafa í huga að það er ekkert samasemmerki, þó að það hafi komið fram í umræðunni að ýmsir telji að svo sé, þá er ekki samasemmerki á milli rafrænna sjúkraskráa og gagnagrunna. Þetta er sitt hvor hluturinn og ég tel mjög varhugavert að blanda því tvennu saman.

En vegna umræðunnar sem hér hefur farið fram um 15. gr. frumvarpsins þá hef ég fengið ábendingu um að meðferð heilbrigðisráðuneytisins á því að úrskurða að aðgangur að sjúkraskrám látinna sé heimill, þ.e. þeir úrskurðir sem ráðuneytið hefur kveðið upp liggur fyrir að hafi kveðið upp, þó að landlæknir hafi upphaflega hafnað, þeir byggjast á 12. gr. laga um réttindi sjúklinga. Það stemmir við það að í nefndarálitinu er hætt við að fella út, þ.e. samkvæmt 26. gr. frumvarpsins, 3. og 4. málslið 12. gr. laga um réttindi sjúklinga, en í nefndarálitinu er gert ráð fyrir að hætt verði við að fella þetta út.

Ég hins vegar verð að viðurkenna að mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig hægt er að byggja úrskurði um aðgang að sjúkraskrám látinna á umræddri 12. gr. laga um réttindi sjúklinga. 12. gr. fjallar um þagnarskyldu starfsmanna í heilbrigðisþjónustu og síðan segir þar að þagnarskyldan haldist þó að sjúklingur andist og þó að starfsmaður láti af störfum. Síðan kemur: Mæli ríkar ástæður með því getur starfsmaður látið í té upplýsingar með hliðsjón af vilja hins látna og hagsmunum hlutaðeigandi. Sé starfsmaður í vafa getur hann borið málið undir landlækni.

Ég hef alltaf túlkað þetta ákvæði svo og hef ekki vitað til að um einhvern ágreining væri að ræða í raun og veru, að þarna væri um að ræða huglæga þekkingu heilbrigðisstarfsmanns vegna samskipta hans við sjúkling. Þetta sé ekki eitthvað sem hann megi gefa upplýsingar um eftir að hann hefur farið í sjúkraskrána. Ég hef hvergi séð nein merki þess og raunar sé ekki hvernig menn geta túlkað þessa 12. gr. þannig að hún heimili aðgang að sjúkraskrá og því síður aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings. Um aðgang að sjúkraskrám er fjallað í 14. laga um réttindi sjúklinga. Enda heitir sú grein Aðgangur að sjúkraskrám.

Ég átta mig ekki á því með hvaða heimild þetta hefur verið túlkað með þessum hætti en ég taldi nauðsynlegt og rétt að láta þetta koma (Forseti hringir.) fram af því mér barst þessi ábending.