136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að beina fyrirspurn til fjármálaráðherra vegna samstarfsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er þannig að eftir áfangaskýrsluna frá því í febrúar stóð til að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kæmi með aðra greiðsluna af láninu en það hefur dregist. Það er enn óútskýrt hvers vegna greiðslan frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur ekki enn þá borist og það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að þetta kunni að vera ein af orsökunum fyrir því að gengi krónunnar gefur eftir. Það hefur gefið eftir síðan ríkisstjórnin tók við um 15%.

Í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar er lögð sérstök áhersla á að kynna áætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég sakna þess nú þegar við komum hér saman til að slíta þingi að ekki hafi birst neinir tilburðir frá ríkisstjórninni til að kynna þessa áætlun sérstaklega og þar var líka talað um að leitað yrði leiða til að lækka vexti eins fljótt og kostur er og að fram kæmi tímasett áætlun um rýmkun hafta. Hvað veldur því að önnur greiðsla frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur enn ekki borist? Eru þær tafir vegna aðstæðna í íslensku efnahagslífi? Hefur íslenskum stjórnvöldum mistekist að uppfylla einhver skilyrði og hangir þetta saman við rof á því loforði að stjórnvöld kæmu fram með tímasetta áætlun um afnám hafta eins og gert var ráð fyrir í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar?