136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

[10:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég hef farið yfir þetta áður en það er sjálfsagt að gera það einu sinni enn. Aðaltöfin á þeirri tímaáætlun sem unnið var samkvæmt á haustmánuðunum, í nóvember og desember, varð í tíð fyrri ríkisstjórnar. Þannig var að fyrri ríkisstjórn — (Gripið fram í.) ef hornið á erfitt með að þola að heyra sannleikann er það vandamál þeirra sem þar sitja — átti að skila gögnum til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í lok desember. Það var farið fram á að fá að skila þeim gögnum í janúar. Síðan leið janúarmánuður eins og hann leið hér í íslensku samfélagi og það urðu stjórnarskipti um mánaðamótin. Þegar komið var í ráðuneytin í byrjun febrúar var öll sú vinna óunnin sem átti upphaflega að ganga til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í lok desember. Menn fengu undanþágu til að skila í janúar en vinnan var óunnin 1. febrúar.

Þetta er aðaltöfin í ferlinu. Síðan dróst það um u.þ.b. viku að sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kæmi og hún dvaldi næstum viku lengur en upphaflega hafði verið áætlað. Nokkurn veginn þetta skýrir nákvæmlega þá töf sem orðið hefur á fyrirtekt stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Talsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lauk á fundi vestan hafs fyrir viku lofsorði á það að íslensk stjórnvöld væru að vinna mjög faglega að þessum málum og það er ekkert upp á þá vinnu að klaga. Það stóð aldrei til að næsti skammtur af láninu yrði afgreiddur fyrr en stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væri búin að taka endurskoðunarskýrsluna fyrir og gefa grænt ljós á hana. Um leið og það hefur gerst, þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur málið fyrir samkvæmt vinnuáætlun sinni, er þess að vænta að næsta greiðsla af láninu komi.