136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

byggðakvóti.

[10:53]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Fl):

Herra forseti. Ég verð aðeins að benda á að verið er að afnema byggðakvótann og það þarf ekkert að gera það þótt reglurnar hafi verið lélegar og þótt þessum heimildum hafi verið illa úthlutað. Það er hægt að breyta úthlutuninni og það er ekki búið að deila út byggðakvóta síðasta árs. Af hverju er ekki búið að því? Hver er sjávarútvegsráðherra í dag?

Síðan vil ég benda á að fyrir þinginu liggur frumvarp frá Frjálslynda flokknum um frjálsar handfæraveiðar en það hefur ekki mátt taka það til afgreiðslu í þinginu. Það sem hægt er að sjá út úr þessu öllu saman, eins og mátti skilja á orðum hæstv. sjávarútvegsráðherra í gær, er að Vinstri grænir hafa ekki nokkurn einasta áhuga á því að skera upp sjávarútvegskerfi sem er brýn nauðsyn fyrir byggðir landsins, útgerð landsins, atvinnulífið og til að útrýma þeirri spillingu (Forseti hringir.) sem kvótakerfið hefur leitt til á Íslandi og hefur komið okkur í gríðarleg vandræði. (Forseti hringir.) Og það er ömurlegt þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra (Forseti hringir.) kemur með dylgjur um Frjálslynda flokkinn (Forseti hringir.) og skoðanir hans á sjávarútvegsmálum.