136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

byggðakvóti.

[10:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég var engar dylgjur með. Ég lýsti bara undrun minni á því að þegar loksins koma fram tillögur um að ráðast í einhverjar breytingar og prófa eitthvað nýtt í þessu kerfi, auka frelsi í handfæraveiðum yfir sumarmánuðina í þágu minni sjávarbyggða (Gripið fram í.) — hverjir bregðast þá öndverðir við aðrir en Frjálslyndi flokkurinn? Á dauða mínum átti ég von, verð ég að segja. Ég veit vel um það að Frjálslyndi flokkurinn hefði viljað gera miklu meira og er með hugmyndir um ótakmarkaðar veiðar (Gripið fram í.) á handfæri upp á tugi þúsunda tonna (Gripið fram í.) ef því er að skipta. En það er dálítið sérkennilegt að það skuli einmitt vera Frjálslyndi flokkurinn sem tekur hugmyndum um breytingar til reynslu í þessu kerfi með þeim hætti sem þarna er gert.

Varðandi byggðakvótann og hvers vegna enn (Gripið fram í.) er ónýttur hluti af byggðakvóta fyrra fiskveiðiárs er það vegna þess að þar hafa komið upp tillögur um öðruvísi meðferð hans sem farið hefur í ferli. Það er yfirleitt vegna þess að sveitarstjórnir (Forseti hringir.) hafa óskað eftir einhverjum öðrum breytingum (Forseti hringir.) eða öðrum aðferðum við úthlutun og það hefur tafið úthlutunina en ekki ráðuneytið.