136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

málefni hælisleitenda.

[11:07]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp öðru sinni vegna þess að ég gleymdi að svara síðari hluta spurningarinnar sem varðar það hvað fer fram núna varðandi endurskoðun þá sem ég hef tilkynnt að sé í gangi. Annars vegar er núna verið að fara yfir verkferla varðandi birtingu ákvarðana og brottvísanir. Embættismenn í dómsmálaráðuneyti, Útlendingastofnun og hjá ríkislögreglustjóra gera það. Einnig hef ég sett af stað endurskoðun reglna um málefni hælisleitenda, þ.e. hvað varðar lengd málsmeðferðar og önnur atriði. Þetta verður að skoða með tilliti til nýlegrar dómaframkvæmdar á Íslandi. Einnig verður að athuga dóma Mannréttindadómstólsins í þessu sambandi.