136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

svar við fyrirspurn.

[11:16]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér barst í dag svar við fyrirspurn um vinnslu hvalafurða frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það var með nokkuð daufu sinni sem ég las það svar því að þar var m.a. beðið um upplýsingar um hversu mikill hluti hvers dýrs af tiltekinni vertíð var nýttur í vinnslu, um hrefnur og langreyðar, um vinnslu í kjöt, spik/rengi, mjöl og lýsi og hvernig stæði á þeim mun sem þarna kynni að vera á. Svör sjávarútvegsráðherra voru þau að ráðuneytið hafi ekki þessar upplýsingar en þingmanninum er bent á að leita þeirra hjá fyrirtækinu Hval hf. eða Hrefnuveiðimönnum ehf.

Það hefur ekki upplýsingarnar, það hefur þá greinilega ekki áhuga á að leita þeirra, það lítur ekki svo á að því sé skylt að gera það.

Forseti. Ég tel að þessi svör séu ekki fullnægjandi og að ráðuneytið standi sig ekki í þeirri upplýsingagjöf sem það er skylt að vera í gagnvart þingmönnum á Alþingi Íslendinga og bið um að forseti leiti skýringa á þessum skrýtnu svörum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. (Gripið fram í.)