136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[11:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að Samfylkingin lagði drög að nokkrum þeim málum sem héldu svo áfram í þinginu. [Hlátur í þingsal.] Já, ég held að Samfylkingin hafi átt langmestan heiður af því sem þó var hrint í framkvæmd eða drög lögð að í tíð fyrri ríkisstjórnar sem snúa að heimilunum í landinu þó að fyrsta verk sjálfstæðismanna hafi verið að leggja til að ýmsum þeim aðgerðum yrði snúið við og þær dregnar til baka þegar við lentum í hremmingunum. Svona vinnur Sjálfstæðisflokkurinn. En við höfum þó náð fram ýmsum aðgerðum fyrir lífeyrisþega og fleiri.

Ég held að það sé hreint og beint þessum Sjálfstæðisflokki til skammar hvernig hann ætlar að ljúka þinghaldinu. Hver er tillaga sjálfstæðismanna að því er varðar lýðræðisumbætur sem fólkið kallar eftir? Það er að fara í gamla farið og leggja fram tillögu um að gamaldags stjórnarskrárnefnd verði skipuð. Það hefur verið gert í gegnum tíðina með litlum sem engum árangri undir forustu Björns Bjarnasonar. (Gripið fram í: Nú?) Hver var hin tillagan? Hún var að þeir fengju neitunarvald um það að ef hér yrðu samþykktar stjórnarskrárbreytingar hefðu þeir neitunarvald um það hvort þær færu fyrir þjóðina og það gætu þá liðið 2–3 ár þar til þetta færi fyrir þjóðina. (Gripið fram í.) Þannig vinna þeir. Þeir vinna alltaf með sérhagsmunum og gegn almannahagsmunum. Þannig vinnur íhaldið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í.)

Varðandi heimilin í landinu og varðandi fyrirtækin er ýmislegt sem þessi ríkisstjórn hefur gert varðandi fjármálakerfið til að endurreisa það og bankana. Drög voru lögð og unnið að málum í tíð þessarar ríkisstjórnar og það er það sem skiptir máli. Það er skömm að því fyrir íhaldið sem alltaf telur sig málsvara atvinnuveganna að það skuli vera við í félagshyggjustjórninni sem höfum lagt grunninn að því að hér verði hægt að koma atvinnulífinu á lappirnar á nýjan leik. Það var ekki Sjálfstæðisflokkurinn. (Gripið fram í.)