136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[11:39]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson minnti mig dálítið á góða dátann Svejk þegar hann flutti ræðu sína áðan, (Gripið fram í.) þegar hann lýsti á hendur sér afrekum sem hann hefur alls ekki unnið. Góði dátinn Svejk stundaði nefnilega um tíma sölu á rottuhundum og hann hafði eina lykilreglu, hann laug upp á hundinn afrekum sem hann hafði alls ekki unnið, hirti peningana eins og hann gat og flúði svo eins og fætur toguðu inn á næsta bar þannig að enginn næði til hans.

Þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson lýsti því að allt sem hér hefur verið gert hafi á einn eða annan hátt átt rætur sínar að rekja til afreka Sjálfstæðisflokksins og hugmyndafræði hans verð ég að segja eins og er að þá kom upp í hugann þessi gamla saga af góða dátanum Svejk.

Hv. þm. Karl Valgarður Matthíasson flutti örlitla tölu í morgun og rifjaði upp mikilvægi auðmýktarinnar, það væri mikilvægt að sýna auðmýkt og ég tala nú ekki um á þingi (Gripið fram í.) og í umgengni við valdið. Sú ríkisstjórn sem hér situr hafði 80 daga til að hreinsa upp eftir afrek Sjálfstæðisflokksins í 18 ár, (Gripið fram í: … Samfylkingarinnar.) hafði 80 daga til að hreinsa upp eða vinna á efnahagshruninu og því ástandi sem er í samfélaginu eftir 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður kemur svo hér upp þegar verið er að fjalla um tillögu um slit á þinginu og undrast að 80 daga ríkisstjórninni hafi ekki tekist til fulls að hreinsa upp eftir brunarústir Sjálfstæðisflokksins. Þetta er með hreinum ólíkindum og sýnir að auðmýktin er víðs fjarri þegar umræða um þessa fortíð á sér stað á hinu háa Alþingi.

Auðvitað á hv. þingmaður að koma upp og biðjast afsökunar á 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Það væri til þess að sýna auðmýkt og sýna þjóðinni virðingu. En að koma hér upp og gagnrýna að þeirri ríkisstjórn sem nú situr skuli ekki hafa tekist að hreinsa fullkomlega til er með hreinum ólíkindum. Þessi ræða, virðulegi forseti, sem hv. þingmaður flutti hér þegar flutt hafði verið tillaga um þingfrestun verður örugglega lengi í minnum höfð, (Gripið fram í: Meðan land byggist.) líklega meðan land byggist því að afrek Sjálfstæðisflokksins á þessum 80 dögum eru að setja Íslandsmet í málþófi (Gripið fram í: Er Jóhanna …?) því að aldrei fyrr [Háreysti í þingsal.] í nokkurri umræðu um nokkurt mál hafa verið fluttar á áttunda hundrað ræður, aldrei. (Gripið fram í: Stuttar og hnitmiðaðar.) Aldrei fyrr, rúmlega 700 ræður (Gripið fram í: Hvernig gekk?) og hv. þingmanni kemur á óvart að þessi ríkisstjórn hafi ekki leyst úr öllum vanda, ef ekki leyst lífsgátuna (Gripið fram í.) á þessum tíma meðan fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa barist gegn lýðræðisumbótum af meira afli en þekkist í þingsögunni og átt þátt í að hér voru fluttar á áttunda hundrað ræður til að koma í veg fyrir lýðræðisumbætur í samfélaginu. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) Þetta er með ólíkindum og þetta er hið raunverulega afrek Sjálfstæðisflokksins eftir að hann gekk úr skaftinu eftir 18 ára valdatíð. Fyrir þetta verður hans minnst á þessum tíma, virðulegi forseti.

Ég hvet hv. þm. Bjarna Benediktsson sem er nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins að koma upp, biðjast frekar afsökunar á valdatíð Sjálfstæðisflokksins og sýna raunverulega auðmýkt en ekki stíga hér fram eins og hann gerði og flytja þá ræðu sem hann flutti sem verður án efa lengi minnst í þingsögunni fyrir það sem þar kom fram.