136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[11:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég átti von á því að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson mundi nota tækifærið fyrst hann var að hvetja aðra til að biðjast afsökunar og biðjast þá afsökunar fyrir hönd Samfylkingarinnar og ráðherra hennar á ástandi stjórnmála hér þegar bankahrunið átti sér stað í haust. Ég geri ráð fyrir því — (Gripið fram í: … viðskiptaráðuneyti.) og t.d. viðskiptaráðuneyti, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Við erum að tala um það að sú ríkisstjórn sem er nú búin að starfa í 85 daga tók við völdum með miklar yfirlýsingar um að það ætti að slá skjaldborg um heimilin í landinu. Hún var mynduð til þess, að sögn, að verja heimilin og fyrirtækin. Það sem liggur á borðinu er að ekkert hefur þokast í þá átt. Þess í stað hefur ríkisstjórnin eytt tíma sínum í að reyna að koma hér fram í fullkomnu ósætti breytingum á stjórnarskrá sem hafa ekkert með heimilin og fyrirtækin að gera, ekki neitt. Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með þessu.

Hér var minnst á fjölda ræðna. Ég gæti farið út í svona talningu eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og t.d. bent á að sá þingmaður sem hefur flutt lengstu ræðuna í sögu Alþingis er nú forsætisráðherra. Sá þingmaður sem lengst hefur talað á Alþingi alla tíð, sá maður sem mundi vera ræðukóngur Alþingis a.m.k. síðustu 100 árin, situr nú og er fjármálaráðherra. Við getum farið út í alls konar samanburð að þessu leyti.

Ef við bara tökum kjarna málsins er það sem skiptir máli það að þessi ríkisstjórn var mynduð með fögrum loforðum. Hún hefur verið dugleg að halda blaðamannafundi, hún hefur verið dugleg að gefa yfirlýsingar en allar aðgerðir hafa látið á sér standa.