136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[12:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson rauf hér allar þingvenjur um framgöngu mála við umfjöllun um tillögu um þingfrestun. (Gripið fram í.) Hæstv. forsætisráðherra flutti hér að vanda slíka tillögu og það ávarp sem formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins hefði átt að flytja er auðvitað með hefðbundnum hætti kveðja til Alþingis.

En hér efnir hv. þm. Bjarni Benediktsson til eldhúsdags með rakalausum ásökunum í garð ríkisstjórnarinnar og við það verður ekki unað. Auðvitað er ekki hægt að sitja undir því að formaður Sjálfstæðisflokksins misnoti aðstöðu sína með þessum hætti og veigri sér síðan við því að talað sé um verkleysi Sjálfstæðisflokksins, getuleysi hans í stjórn landsmála og af hverju við erum að fara í kosningar núna. Fyrst og fremst vegna þess að Sjálfstæðisflokkinn þraut örendið til þess að stjórna landinu.