136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

frestun á fundum Alþingis.

473. mál
[12:04]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er mjög óvænt. Ég taldi að hér yrði flutt tillaga um þingslit og síðan yrði hún bara afgreidd. En þá ber svo við að formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, kemur hér upp í ræðustól með hríðskotabyssu í hendi og hefur skothríð í allar áttir og má segja að hér hafi meira og minna kviknað í öllu saman eins og við höfum orðið vitni að í umræðunni.

Þetta var gert með þeim hætti að blóðið tók að renna í hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni. Það var svolítið gaman að því. Hæstv. ráðherra fór um stund úr ráðherrabuxunum og í gömlu stjórnarandstöðubuxurnar sínar og hækkaði róminn og síðan hafa menn hlaupið upp í andsvör hver á fætur öðrum. Þetta var allt mjög óvænt.

Það er að skella á hálfgerð eldhúsdagsumræða, virðulegi forseti, og ég beini því til hæstv. forseta að hann beiti sér fyrir því að við reynum einhvern veginn að ljúka þessari umræðu þannig að það verði ekki eldhúsdagur í allan dag. Ég legg til að það geti bara einn talað frá hverjum flokki og síðan verði þessari umræðu lokið.

En ég vil fá að rifja aðeins upp söguna, virðulegi forseti, við þetta tækifæri. Það er mjög óvænt að haldnar séu alþingiskosningar núna einungis tveimur árum eftir að við kusum síðast, það voru kosningar árið 2007. Hvað átti sér stað 2007? Þá fórum við í kosningabaráttu og það er alveg ljóst að útrásarvíkingarnir svokölluðu beittu sér í kosningabaráttunni og í aðdraganda hennar. (Gripið fram í: Og borguðu styrki.) Já, virðulegi forseti, hér er frammíkall: Borguðu styrki. Það er rétt. Þeir beittu líka fjölmiðlaveldi sínu og allir sem fylgjast með stjórnmálum og almennri þjóðmálaumræðu sáu hvernig útrásarvíkingarnir beittu fjölmiðlaveldi sínu til að koma á sinni óskastjórn. Þeirri óskastjórn var komið á. Útrásarvíkingunum varð að ósk sinni. Hér tók við stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar árið 2007.

Það var mjög lærdómsríkt að fylgjast með þeirri kosningabaráttu og taka þátt í henni. Á þeim tíma voru framsóknarmenn með ráðuneyti heilbrigðismála og ráðuneyti félagsmála og það var alveg með ólíkindum hvað t.d. Samfylkingin átti greiðan aðgang að fjölmiðlum í þeim málaflokkum og það var alveg með ólíkindum hvað það var erfitt fyrir okkur að koma sannleikanum á framfæri í gegnum fjölmiðla. Þetta var mjög lærdómsríkt, virðulegi forseti.

Óskastjórn útrásarvíkinganna tók við, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, og það var engin smáríkisstjórn. Hún naut stuðnings 43 þingmanna af 63. Það var ofurmeirihluti í þinginu með þessari óskastjórn. Stjórnarandstaðan var einungis með 20 þingmenn.

Hvað gerði svo óskastjórn útrásarvíkinganna? Hún gerði mest lítið. Hún byrjaði á því að sofa á vaktinni gagnvart því sem var að gerast í bönkunum. Það kviknuðu hér viðvörunarljós sem hún leit ekki á. Hún var meira að segja svo blind að í fjárlagagerðinni fyrir árið 2008 tókst þessari ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að auka útgjöld ríkisins um 20%. Samt vorum við að koma úr kosningabaráttu, nýkomin úr kosningabaráttu og þá er ekki hefð fyrir því að auka mikið ríkisútgjöldin. Samt gerði þessi ríkisstjórn það.

Síðan horfði þjóðin upp á það að ríkisstjórnin, þessir flokkar, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, slógu hvor annan með Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu og það varð pattstaða. Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki gera neinar breytingar í Seðlabankanum og Samfylkingin vildi ekki gera neinar breytingar í Fjármálaeftirlitinu. Þetta horfðum við upp á um tíma.

Síðan var það eftir síðustu jól, í byrjun árs 2009 að ríkisstjórnin, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar kom til leiks án nokkurra tillagna um úrbætur og það var hálfgert uppreisnarástand hér á götunum. Maður trúði því ekki að … (Forseti hringir.)

(Forseti (KHG): Forseti biður hv. þingmenn velvirðingar á trufluninni en hann óskar eftir því að þingmenn í hliðarsal gefi ræðumönnum gott næði til að flytja sitt mál.)

Takk fyrir, virðulegi forseti. Eftir jólin komum við hingað til starfa og þá voru engar tillögur hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á borðinu. Stór hluti þjóðarinnar mótmælti og það var byltingarástand hér á götunum og það var mjög sérstakt að verða vitni að því. Þá var ekkert annað að gera en að stokka hér upp á nýtt.

Ríkisstjórnin hrökklaðist frá, hún koðnaði niður. Framsóknarflokkurinn ákvað þá að bjóða upp á það að verja minnihlutastjórn vinstri flokkanna falli með ákveðnum skilyrðum. Eitt af skilyrðunum var það að kosið yrði hið fyrsta, þ.e. 25. apríl, og það er að verða að veruleika. Það er mjög brýnt að ganga til kosninga í þessu ástandi. Það er brýnt að flokkarnir fái umboð til að taka á þeim erfiðu málum sem nú eru uppi.

Við lögðum líka fram sem skilyrði að tekið yrði á vanda fyrirtækjanna og vanda heimilanna. Það verður að segjast eins og er að við höfum orðið fyrir miklum vonbrigðum með vinstri flokkana í báðum þessum málum. Hvorki hefur verið tekið nógu röggsamlega á vanda heimilanna né fyrirtækjanna. Framsóknarflokkurinn lagði fram tillögur í 18 liðum um efnahagsvandann, úrlausnir í efnahagsvandanum. Við viljum lausnir. Sú róttækasta felur í sér 20% leiðréttingu á höfuðstól húsnæðislána og lána fyrirtækjanna.

Virðulegi forseti. Ég er eiginlega sannfærð um að þessi leið verður farin. Það er bara spurning um hvenær. Og ég vil nefna að áberandi og leiðandi fólk í hinum stjórnmálaflokkunum, nokkrir hafa meira og minna tekið undir þessar tillögur okkar framsóknarmanna um 20% leiðréttinguna. Ég nefni þar Tryggva Þór Herbertsson, sem er frambjóðandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi, sem hefur tekið mjög kröftuglega undir þessar hugmyndir Framsóknarflokksins um 20% leiðréttingu. Ég vil líka nefna Lilju Mósesdóttur, sem er frambjóðandi Vinstri grænna, sem hefur þó nálgast þessi mál með örlítið öðrum hætti, þ.e. að veita niðurfellingu af húsnæðislánum um 4 millj. kr. en það er samt sami andinn í þeirri tillögu. Síðan vil ég líka nefna Eirík Bergmann samfylkingarmann og hann hefur sagt opinberlega að þessi leið sé sú eina færa. Það er okkar bjargfasta trú, virðulegi forseti, að þessi leið verði farin. Það er bara spurning um hvenær og hugsanlega er hægt að útfæra hana með eilítið öðrum hætti. En það þarf að fara í leiðréttingu bæði varðandi fyrirtækin og heimilin í landinu og það þarf að gera meira en núverandi ríkisstjórn hefur gert.

Greiðsluaðlögunarmálið er skref í rétta átt. Það er alveg ljóst að þó að 20% leiðréttingarleiðin yrði farin þyrfti samt hluti þjóðarinnar að fara í greiðsluaðlögun. Að sjálfsögðu höfum við stutt það mál hér en það er bara engan veginn nóg, virðulegi forseti.

Fjórða málið sem framsóknarmenn settu á oddinn varðandi það að styðja minnihlutastjórn og verja hana vantrausti í þinginu var stjórnlagaþing. Ég þakka vinstri flokkunum sérstaklega fyrir röggsaman stuðning í því máli. Þar hefur ekki borið neinn skugga á, þar hafa menn viljað klára málin og koma á stjórnlagaþingi sem þjóðin mundi kjósa. Þar væru hvorki þingmenn né ráðherrar í framboði heldur aðrir þjóðfélagsþegnar og stjórnlagaþingið mundi síðan útbúa drög að stjórnarskrá sem þjóðin fengi að kjósa um í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Stjórnarskráin er algerlega úrelt og ég ætla ekki að hafa mörg önnur orð um hana nema þau að hún felur í sér mjög samþjappað vald hér á landi og henni verður að breyta. Þar lögðust sjálfstæðismenn hins vegar algerlega þverir fyrir og töluðu hér í marga daga og aðallega um stjórnlagaþingið. Síðan kom í ljós í gær þegar þeir lögðu fram tillögur sínar í stjórnarskrárnefnd að þar var meira á bak við. Þeir leggja fram tillögu í auðlindamálum þar sem ákveðin setning hefur gufað upp, að náttúruauðlindir eigi að vera í eigu þjóðarinnar og þær megi ekki selja eða láta varanlega af hendi. Sú setning var bara látin gufa upp hjá Sjálfstæðisflokknum.

Sjálfstæðismenn hafa hindrað hér allar lýðræðisumbætur á stjórnarskránni og voru ekki einu sinni til í það þegar upp var staðið að breyta 79. gr., þ.e. hvernig breyta á stjórnarskránni, aðferðafræðinni, sem þeir þó voru búnir að segja bæði í þessum sal og utan hans að þeir vildu breyta, en þar var líka dregið í land. Það er mjög brýnt að þjóðin átti sig á því að Sjálfstæðisflokkurinn kom í veg fyrir allar breytingar á stjórnarskránni, stjórnlagaþingið og líka hinar greinarnar.

Við framsóknarmenn ákváðum strax eftir páska að draga stjórnlagaþingsmálið út af því að sjálfstæðismenn höfðu beitt sér af þvílíku offorsi gegn því, og sjá hvort þeir mundu (Gripið fram í.) gera eitthvað varðandi hin ákvæðin því að okkur grunaði að þeir vildu ekki breyta neinu. Það kom svo sannarlega í ljós, þeir vildu nefnilega engu breyta. Þó að við hefðum dregið stjórnlagaþingið út fór ekkert í gegn. Þetta sýnir kannski, virðulegi forseti, að líklega þarf að breyta þingsköpum þannig að ræðutími í 2. umr. verði takmarkaður til að við upplifum það ekki aftur að minni hluti þingmanna hertaki þingið, taki það algerlega í gíslingu og tali út í það óendanlega. Til dæmis hótaði hv. þm. Björn Bjarnason því að tala hér dag og nótt í þessu máli. Þetta er íhugunarefni og ég tel að á næsta kjörtímabili þurfi að ræða það hvort ekki eigi að takmarka umræðuna í 2. umr. þannig að minni hluti þingmanna geti ekki tekið þingið í gíslingu. Þannig er þetta í öðrum ríkjum, þar eru takmarkanir á umræðum. Ég tel að þetta sé íhugunarefni fyrir okkur líka, virðulegi forseti.

En ég vona að hægt sé að semja um það að þinginu fari að ljúka. Ég taldi að búið væri að semja um það en Sjálfstæðisflokkurinn kom hér upp og skaut í allar áttir. Þá er ekkert um annað að ræða en að allir komi sínum sjónarmiðum á framfæri og hef nú gert það fyrir hönd framsóknarmanna. Ég tel mikilvægt að við getum fljótlega gengið til kosninga þar sem þjóðin fái að velja hvaða flokka hún vill kjósa. Hvort hún vilji kjósa flokk eins og Framsóknarflokkinn sem er hófsamur miðjuflokkur sem hafnar öfgum til hægri og vinstri og vill jöfnuð í samfélaginu, réttlæti og sanngirni og meira lýðræði, eða hvort þjóðin vilji einhverja aðra flokka.

Ég vil líka, virðulegi forseti, minna þjóðina á það, og það er mín skoðun, að það væri ekki hagfellt fyrir hana ef hér yrði hrein vinstri stjórn að kosningum loknum. Það er ekki gott að fara út í öfgarnar hvorki til hægri né vinstri.