136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég geri grein fyrir framhaldsnefndaráliti sem fulltrúi meira hluta stjórnarskrárnefndar, en ásamt mér standa að álitinu hv. þingmenn Atli Gíslason, Ellert B. Schram, Siv Friðleifsdóttir og Guðjón A. Kristjánsson.

Virðulegi forseti. Að mínu mati eru þær hugmyndir sem settar voru fram um breytingar á stjórnarskránni einhverjar þær merkustu til lýðræðisumbóta sem settar hafa verið fram í mjög langan tíma. Það vakti alveg sérstaka athygli mína að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem telja sig hafa komið í veg fyrir að þær hugmyndir geti orðið að veruleika, hafa lýst því yfir að þeir hafi unnið fullnaðarsigur, væntanlega á þjóðinni, og tekist að þeirra mati að koma í veg fyrir að merkar lýðræðisumbætur næðu fram að ganga. Meira að segja hv. þm. Björn Bjarnason, sem tjáði sig oft og iðulega í umræðum, lýsti því yfir sem fulltrúi minni hluta þingsins — en minni hluti þingsins hefur verið andvígur þessum breytingum — að hann mundi stunda málþóf a.m.k. fram á kjördag ef með þyrfti og taldi sig mann að meiri að stunda slíkar æfingar (Gripið fram í.) til þess að koma í veg fyrir að meiri hluti þingsins næði því fram að tryggja að íslenska þjóðin mundi öðlast þær lýðræðisumbætur sem í þeim hugmyndum felast, aukin heldur að tryggt yrði með ákvæði í stjórnarskrá að náttúruauðlindir yrðu varanlega í þjóðareign. Það að telja sig hafa komið í veg fyrir að slíkar hugmyndir yrðu að veruleika telur Sjálfstæðisflokkurinn, eða hv. þingmenn hans, að í því felist fullnaðarsigur.

Við hljótum að spyrja eðli málsins samkvæmt — fullnaðarsigur á hverju? Því að þetta voru umbætur til handa þjóðinni. Væntanlega er þá um það að ræða að fulltrúar valdaflokks um óbreytt ástand hafa talið að með þeirri niðurstöðu að náist þessar hugmyndir ekki fram séu þeir að tryggja stöðu sína og hag sinn til framtíðar. Það er væntanlega sá fullnaðarsigur sem þeir telja sig hafa unnið nái þessar hugmyndir ekki fram að ganga.

Virðulegi forseti. Málið var tekið aftur til umfjöllunar í sérnefnd um stjórnarskrármál áður en 2. umr. lauk í því skyni að reyna að ná samkomulagi milli fulltrúa þingflokks Sjálfstæðisflokksins annars vegar og fulltrúa meiri hlutans hins vegar. Það var gert, virðulegi forseti, vegna þess að í umræðum á hinu háa Alþingi um þetta mál hafði ítrekað komið fram, í mýmörgum ræðum hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að þeir væru tilbúnir til að ná einhvers konar sátt eða lendingu um þrjár fyrstu greinar frumvarpsins, sem lúta í fyrsta lagi að því að náttúruauðlindir verði þjóðareign og þær verði ekki varanlega af hendi látnar, í annan stað að einfalda og auðvelda breytingar á stjórnarskrá m.a. í því skyni að niðurstaðan sé sú að ekki þurfi að fara fram alþingiskosningar í milli þar til breytingar á stjórnarskrá ná fram að ganga, og í þriðja lagi að almenningur geti haft frumkvæði að því að knýja á um að þjóðaratkvæðagreiðsla geti farið fram um málefni er lúta að almannahag. Þetta voru þau þrjú ákvæði sem ítrekað komu fram í andsvörum og ræðum sem talið var að mætti hugsanlega ná samkomulagi um. Á hinn bóginn hafa hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins verið samkvæmir sjálfum sér allan tímann að þeir voru algjörlega andvígir því að stjórnlagaþing næði fram að ganga.

Í því ljósi lýsti fulltrúi Framsóknarflokksins því yfir að hann vildi falla frá hugmynd um stjórnlagaþing ef það gæti orðið til þess að ná sátt um aðrar lýðræðisbreytingar og tryggingu á því að auðlindir yrðu varanlega í þjóðareign. Í því umhverfi var ákveðið að kalla málið til nefndar og leita sátta. Frá því er skemmst að segja að sú sátt tókst ekki og þess vegna var málið tekið út á nýjan leik og því var þetta framhaldsnefndarálit skrifað.

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að mér er nokkur vandi á höndum að fjalla um þær tillögur sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu fram í stjórnarskrárnefndinni. Vegna þess að svo undarlega vildi til að frá því að tillögur fulltrúa stjórnarskrárnefndar voru settar fram og kynntar sem sáttagrundvöllur í stjórnarskrárnefnd, tóku þær breytingum frá því að tillagan var kynnt í stjórnarskrárnefnd þar til hún var lögð fram á þinginu. (Gripið fram í.) Þetta er með hreinum ólíkindum og líklega óþekkt. Þetta er dæmi um hver hinn raunverulegi sáttavilji þingmanna Sjálfstæðisflokksins var í málinu. Með öðrum orðum, þeir lögðu fram í stjórnarskrárnefnd tillögur til viðræðna og umræða um þær dró fram að þeir töldu alveg fráleitt og vörðu það í umræðum í stjórnarskrárnefnd að sett yrði ákvæði um að auðlindir yrðu varanlega í þjóðareign. Þetta var tekið upp og spurt: Hvers vegna eru hv. þingmenn að leggja til að ákvæði þess efnis að lagt verði bann við framsali á náttúruauðlindum í þjóðareign, félli brott samkvæmt breytingartillögum þeirra? Svörin voru á þá leið að þetta væri ekkert síðra svona og þess vegna mætti vel ganga frá því á þann hátt.

Síðan er tillagan lögð fram á Alþingi breytt, sem sagt ekki sama tillaga og var kynnt í stjórnarskrárnefndinni. Mér er því dálítill vandi á höndum, virðulegi forseti, þegar ég fjalla um tillögu þá sem lögð var fram í stjórnarskrárnefnd, að hún hefur tekið breytingum frá því … (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Á þeim tímapunkti slitnaði upp úr viðræðum vegna þess að hugmyndin um þjóðareign — eitt hennar megineinkenni er einmitt bann við varanlegu framsali á auðlindum. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu til að það yrði tekið út og töldu það síðan tilefni til sátta. (Gripið fram í.)

Í mínum huga þótti mér þetta vera skýrt dæmi um að áhugi hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins á því að ná sáttum í málinu hafi ekki verið til staðar. Ég vil þó líka segja að þær breytingar sem þeir hafa gert á sinni eigin tillögu, frá því að þeir lögðu hana fram sem sáttatillögu í stjórnarskrárnefnd þar til þeir lögðu tillöguna fram, eru til mikilla bóta og koma til móts við þau sjónarmið sem við settum fram í nefndinni. Og vel má vera að sú umræða sem fór fram í þingsalnum síðar um þá hugmynd sem þeir lögðu fram í stjórnarskrárnefnd hafi leitt til þess að þeir hafi ekki treyst sér til annars en að gera þessar breytingar og væntanlega metið þá sína pólitísku hagsmuni þannig að betra sé að hafa þetta inni og er það vel að þeir hafi séð að sér. Hins vegar hefði verið gott að það hefði komið fram í umræðunni í stjórnarskrárnefndinni þar sem málið var tekið fyrir til þess að reyna að ná sáttum í málinu. Þetta var innlegg þeirra í það mál.

Í annan stað vil ég nefna að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu einnig fram tillögu um það hvernig breyta mætti stjórnarskránni og lögðu þar fram sömu tillögu er ekki náði fram að ganga árið 2007, þá tillögu sem unnin var í stjórnarskrárnefnd sem starfaði á árunum 2005–2007. Þeir lögðu fram með öðrum orðum sömu tillögu. Þetta er reyndar tillaga að danskri fyrirmynd og var sett í dönsku stjórnarskrána árið 1953, ef ég man rétt, og frá þeim tíma hafa ekki verið gerðar breytingar á dönsku stjórnarskránni, sem m.a. ræðst af því að það er mjög flókin útfærsla. (Gripið fram í.) Þetta er það sem hv. þingmenn lögðu fram. Staðreyndin og veruleikinn er sá að þeirri sömu tillögu hafði verið hafnað (Gripið fram í: Af hverjum?) af formönnum flokkanna um morguninn fjórum eða fimm tímum áður en þessi tillaga var lögð fram. (Gripið fram í.)

Ég spyr: Felst í því raunveruleg tillaga til að ná sátt þegar fyrir liggur að sama tillaga hafði verið rædd á fundi formanna flokkanna, sem haldinn var m.a. í því skyni að reyna að ljúka þingstörfum og ná um það sátt þar sem þetta mál var einnig á dagskrá? Ég sat þann fund bara svo það liggi fyrir. Á þeim fundi var sem sagt lögð fram þessi sama sáttatillaga og henni var hafnað. Fjórum tímum síðar mæta þeir hv. þingmenn til fundar við sérnefndina með sömu tillöguna og líta svo á að þeir séu að reyna að ná sátt og hafa jafnvel tjáð sig þannig í fjölmiðlum að þeir hafi haft raunverulegan áhuga á að ná sátt. Hið raunverulega verkefni þingmanna Sjálfstæðisflokksins, og það hefur komið hér fram þar sem minni hlutinn hefur barist mjög harðlega gegn þessu máli og sett Íslandsmet í umræðum á Alþingi í fjölda ræðna, var að koma í veg fyrir og standa vörð um óbreytt ástand. Það var í reynd verkefni sjálfstæðismanna í umræðunum. Það var erindið. Þess vegna var þetta leikrit sett upp þar sem menn reyndu að búa svo um hnútana að þeir væru raunverulega að reyna að ná sátt. Þessar tvær tillögur voru lagðar fram, tillaga sem var lögð fram í nefndinni sem tók síðan breytingum, það var sem sagt önnur tillaga lögð fram á þinginu en lögð var fram í nefndinni til ná sátt. Síðan leggja þeir fram sömu tillögu um breytingar á stjórnarskránni og var hafnað á fundi formanna fjórum, fimm tímum áður. (Gripið fram í.) Þetta er alveg með ólíkindum. Svo koma menn hér upp og segja: Ja, við vorum aldeilis tilbúnir að ná sátt, við vorum boðberar sáttarinnar. Þetta er alveg með ólíkindum.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða, eins og ég gat um í upphafi máls míns, að mínu mati miklar lýðræðisumbætur og þetta er fullnaðarsigur hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins á þjóðinni, eins og þeir hafa lýst, fyrir flokksræðið og fyrir vörð um óbreytt ástand. Að mínu mati er aðeins töf á eðlilegum lýðræðisumbótum. Í sögunni verður það væntanlega svanasöngur hv. þm. Björns Bjarnasonar hér á hinu háa Alþingi að hann hafi verið tilbúinn til þess að stunda málþóf fram á kjördag til að koma í veg fyrir þessar lýðræðisumbætur. Það er mjög athyglisvert.

Hv. þm. Björn Bjarnason hefur einmitt gengið manna lengst í stóryrðum og fullyrðingum um niðurlægingu Alþingis sem var rótin að því að hv. þingmaður var tilbúinn að vera hér fram á kjördag. Niðurlæging Alþingis fælist í því að öðrum en þinginu yrði falin heimild til þess að endurskoða stjórnarskrána og leggja tillögur fyrir þjóðina. Í því fælist áður óþekkt niðurlæging. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur komið hér upp með hugmyndafræði hv. þm. Björns Bjarnasonar og sagt að önnur eins niðurlæging hafi ekki átt sér stað frá því að Alþingi var stofnað 930, það er ekkert minna.

Ég held að ástæða sé til að skoða þá fullyrðingu, ég held að ástæða sé til að fara aðeins yfir hana í hverju niðurlæging Alþingis fælist. Viðhorf hv. þm. Björns Bjarnasonar virðist mér vera það að uppspretta valdsins sé á Alþingi, ekki hjá þjóðinni. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að leggja honum það í munn, en uppspretta valdsins sé einmitt hjá Alþingi og það sé þjóðarinnar að velja inn á Alþingi hvar valdið er, fólk eða einstaklinga til að fara með þetta vald. (Gripið fram í.) Ég held að hv. þingmaður hljóti að túlka þetta svona, ég get ekki skilið hann á annan veg.

Hv. þm. Björn Bjarnason fór hins vegar ekkert í það stjórnlagaþing sem hér var haldið árið 1851, því 1851 var kosið á stjórnlagaþing persónukjöri, sem síðan var kallað þjóðfundurinn. Niðurlæging þingsins, eins og hv. þm. Björn Bjarnason leyfði sér að tala í ræðustól vegna þess að hugmyndin var að stofna stjórnlagaþing, er svo mikil að ekki yrði við unað og að hann skyldi tala og stunda málþóf í þágu mótmæla sinna við lýðræðisumbætur fram á kjördag. Staðreyndin er sú að þjóðfundurinn, stjórnlagaþing okkar, er svo hátt metið að stór mynd er af því stjórnlagaþingi á hinu háa Alþingi. Með öðrum orðum, Alþingi Íslendinga lítur ekki á það sem meiri niðurlægingu en svo að stór mynd af þjóðfundinum er einmitt í aðalanddyri þinghússins, (Gripið fram í.) að stór mynd er af þjóðfundinum, stjórnlagaþinginu sem kosið var á, kosnir voru 40 þjóðkjörnir fulltrúar inn á það stjórnlagaþing, tveir úr hverju kjördæmi, og kosið var inn á það í persónukjöri. Þetta er væntanlega eina viðmiðið sem hv. þm. Björn Bjarnason hefur þegar hann lýsir því að í því felist sérstök niðurlæging fyrir þingið að kosið skuli inn á stjórnlagaþing.

Ég held að rétt sé að rifja það upp og minna á að valdið allt er sprottið frá þjóðinni. Þjóðin getur kosið sér einstaklinga til þess að fara með þetta vald og getur kosið inn á stjórnlagaþing og stjórnlagaþing sækir vald sitt til þjóðarinnar og hefur á þann hátt möguleika á því að leggja tillögur fyrir þjóðina og endanlega er það þjóðin sem tekur um þetta ákvörðun. Þetta var hin mikla niðurlæging sem hv. þm. Björn Bjarnason taldi réttlæta að hann skyldi stunda málþóf sitt fram á kjördag til að koma í veg fyrir að meiri hlutinn næði hugmyndum sínum fram. Það var réttlætingin fyrir því.

Virðulegi forseti. Þar sem tíma mínum í þessari 1. umr. er að ljúka vil ég segja að það voru mér mikil vonbrigði að ekki væri hægt að ná sátt við Sjálfstæðisflokkinn, einn flokka af fimm hér á hinu háa Alþingi, sem barðist gegn þeim hugmyndum sem lagðar voru fram um breytingu á stjórnarskrá. Þetta tefur nauðsynlegar lýðræðislegar umbætur, það er það eina sem gerist. Í sögunni er ekki ólíklegt að hv. þm. Björn Bjarnason verði einmitt þekktur að því að hafa tekist að tefja um nokkur missiri nauðsynlegar lýðræðisumbætur á þessu sviði því að hv. þingmaður hefur leitt orðræðu og hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, það eru líklega þau eftirmæli sem umræðan mun fá.

Þrátt fyrir að við á hinu háa Alþingi hefðum getað stytt umræðuna með breytingum ákváðum við að gera það ekki. Það hefur einungis verið gert einu sinni, árið 1949, í umræðunni um NATO þar sem þingið ákvað að ljúka umræðu og ganga til atkvæðagreiðslu. Það er ekki eðli þeirra stjórnmálaflokka sem hafa lagt þetta fram, þ.e. meiri hluta þingmanna á Alþingi, að leggja til slíkar hugmyndir. Þess vegna var það ekki gert og eins þar sem fram hefur komið að samkomulag er um að reyna að ljúka þinginu í dag er líklegt að þessar lýðræðisumbætur muni ekki ná fram að ganga. En væntanlega felst í því sú grunnhugsun sem býr að baki fullyrðinga hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að þeir hafi unnið fullnaðarsigur á þjóðinni.