136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:03]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér áfram í 2. umr. frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskránni en það varð að samkomulagi á fundi hér á dögunum að málið skyldi tekið aftur til nefndar. Hv. síðasti ræðumaður, Lúðvík Bergvinsson, stýrði nefndarfundum og ég held að allir sem hlustuðu á ræðu hv. þingmanns átti sig á hvers vegna ekki náðist samkomulag í nefndinni. Viðhorfið sem birtist í ræðunni og viðhorfið sem birtist í garð okkar sjálfstæðismanna í þessu máli er þess eðlis að frá fyrsta degi var borin von að um það yrði nokkur sátt.

Við sögðum raunar, þingmenn Sjálfstæðisflokksins í sérnefndinni, í nefndaráliti sem við gáfum strax í upphafi þessarar umræðu, með leyfi forseta:

„Við meðferð þessa máls hefur verið gengið gegn þeirri venju að undirbúa breytingar á stjórnarskrá á þann veg að leitað sé samstöðu allra flokka. Þá hefur verið haldið þannig á málinu í sérnefnd um stjórnarskrármál að tillögu minni hluta nefndarinnar um leið til sátta í henni hefur verið hafnað. Á síðasta fundi sérnefndarinnar lýsti formaður hennar því einfaldlega yfir að tími sátta væri liðinn. Minni hluti sérnefndarinnar gagnrýnir þessa málsmeðferð harðlega og telur hana eina svo ámælisverða að vísa beri frumvarpinu frá að lokinni 2. umræðu um málið og flytur hér tillögu um það.“

Þetta eru upphafsorð í nefndaráliti okkar sem lá fyrir hér og hefur legið fyrir í þeim umræðum sem hér hafa farið fram. Ég ítreka þau sjónarmið mín að ég er stoltur af því að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessum umræðum og ég er einnig stoltur af því sem fram hefur komið að hér hafa verið fluttar meira en 700 ræður í tilefni af þessu máli og í tengslum við það og í tengslum við viðleitni okkar sjálfstæðismanna til að leiða stjórn þingsins og ríkisstjórninni það fyrir sjónir að það væri eðlilegt að haga dagskrá þingsins á annan veg en gert er og gert hefur verið. Ég er tilbúinn, eins og ég hef sagt og hv. síðasti ræðumaður minnti á oftar en einu sinni í ræðu sinni, til að flytja hér margar ræður enn til þess að koma í veg fyrir að sú ósvinna nái fram að ganga að svipta Alþingi stjórnarskrárvaldinu, að það verði hér á Alþingi sem menn ræði og komist að niðurstöðu um stjórnarskrána og því verði ekki vísað frá þinginu og ekki tekið það vald af þinginu. Sú afstaða mín er óbreytt og breytir engu um það þótt vitnað sé til þjóðfundarins árið 1851 þegar aðstaða okkar Íslendinga til valds í eigin málum var allt önnur en hún er nú og alls ekki saman að jafna stöðu Alþingis á þeim tíma og stöðu Alþingis nú. Menn fjölluðu þar um stöðu Íslands innan danska ríkisins en ekki það sem við erum að tala um hér, hvort afsala eigi Alþingi valdi í hendur annarri stofnun sem er jafn laus í reipunum og kemur fram í tillögunum um breytingar á stjórnarskránni. Allar svona sögulegar tilvitnanir finnst mér bera meiri vott um skort á söguþekkingu en raunveruleikanum og minni á það sem kom fram hér í gær að þegar menn eru að slá um sig með þessum hætti, eins og að tala um Soffíu frænku, getur það hitt þá sjálfa verr en þann sem árásin á að beinast að. Ég held að svo sé líka þegar rætt er um það að bera saman stöðu Alþingis nú og á tíma þjóðfundarins árið 1851, það sýnir mér bara að menn hafa ekki þann skilning á þróun mála hér, hvorki stjórnskipunarmála né stjórnarfarsmála né réttarstöðu Íslands almennt, að bera þetta tvennt saman og ótrúleg vanþekking sem birtist í því. Ég gef því ekki mikið fyrir slíka sagnfræði og slíkar sagnfræðilegar samlíkingar.

Hitt, að segja að lýðræðisóvild okkar sjálfstæðismanna felist í því að vilja halda þessu valdi hjá Alþingi, er að sjálfsögðu algjörlega fráleitt. Vandinn í þessu máli er sá að frá upphafi, frá fyrsta degi hefur verið beitt ólýðræðislegum aðferðum í tilrauninni til að knýja það fram. Strax á fyrsta degi og í fyrstu ræðu sem flutt var hér af hálfu okkar sjálfstæðismanna, af þáverandi þingbróður okkar, Geir H. Haarde, var því mótmælt að þessi málsmeðferð yrði viðhöfð og það hefur verið eins og óslitinn þráður í málflutningi okkar frá fyrsta degi að við sættum okkur ekki við að það sé brotin sú hefð sem hér hefur gilt um breytingar á stjórnarskránni allt frá árinu 1918. Það eru aðeins tvö tilvik, 1934 og 1959, þar sem farið hefur verið á svig við þá meginstefnu að leita sátta allra stjórnmálaafla í landinu til þess að vinna að breytingum á stjórnarskránni. Þetta hefur svo margsinnis komið fram að það er fráleitt að kenna það við óvild í garð lýðræðisins að við viljum viðhalda þessum aðferðum og þessum stjórnarháttum.

Það sem mér finnst hins vegar einkennilegt og get ítrekað hér er sú óvild sem komið hefur fram í máli margra þingmanna í garð Alþingis sjálfs, í garð þess að Alþingi hafi þetta vald í sínum höndum að breyta stjórnarskránni, og hefur valdið mér mestum vonbrigðum. Ég skil svo sem vel að prófessorar í háskóla Íslands, eins og prófessor Eiríkur Tómasson, telji sér sæma að ráðast á þingið og segja að þingið eigi ekki að fara með þetta vald og kenna því um og telja að slíkar kenningar hafi sannast nú af því að menn hafi ekki orðið sammála um þetta. Undirrótin að því að við stöndum í þessum sporum er aðferðin sem beitt var og það er sorglegt ef þau ráð að beita þessari aðferð eru komin frá mönnum sem teljast sérfræðingar utan þingsins og ætla síðan að beita því og tala um að það sé niðurlæging þingsins að þetta náist ekki fram hér vegna ósamlyndis. Að sjálfsögðu er það svo um mörg mál í þinginu að þau nást ekki fram vegna þess að menn eru ósammála um þau og þeim mun meiri ástæða er til að árétta mótmæli sín og andstöðu ef um breytingar á stjórnarskránni er að ræða.

Virðulegi forseti. Þegar við komum saman til fundar í sérnefndinni svonefndu, undir formennsku Lúðvíks Bergvinssonar, að morgni fimmtudags var farið yfir málið og það rakið hvernig það stæði og reifuð þau sjónarmið sem menn töldu og formaður sérstaklega taldi þá nauðsynlegt að reifa. Við sjálfstæðismenn fórum fram á hlé á fundinum til þess að við gætum ráðið ráðum okkar og komið síðan með tillögur af því að þess var óskað að við greindum frá því hvaða tillögur við hefðum þar sem við höfðum jú lagt áherslu á það að leitað yrði sátta. Það höfum við gert, virðulegi forseti, og hér liggja fyrir breytingartillögur okkar og nefndarálit sem ég get lesið því að það er mjög stutt:

„Við umræður í nefndinni lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram hugmynd að efnislegri sátt um 1. og 2. gr. frumvarpsins eins og sjá má á breytingartillögum minni hlutans. Þá var til viðbótar lögð fram tillaga til sátta um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Með samþykkt hennar væri lagður grunnur að vandaðri heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í anda umræðunnar í þinginu undanfarna mánuði.

Því miður sló meiri hlutinn á útrétta sáttahönd sjálfstæðismanna í öllum framangreindum liðum.“

Hér er tillaga til þingsályktunar sem er flutt af öllum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins auk hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og hún segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa hlutfallskosningu 25 manna nefnd sem hafi það verkefni að leggja fyrir Alþingi tillögu að endurskoðaðri stjórnarskrá í tæka tíð fyrir 17. júní 2011 svo að álykta megi um hana á hátíðarfundi Alþingis í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar.“

Það sem hér er lagt til er vinnuferli eins og segir í greinargerð með tillögunni sem er alkunnugt í öðrum löndum og þar er sérstaklega nefnd til sögunnar Svíþjóð og það þykir hafa tekist vel til við þá miklu vinnu sem þar hefur verið unnin á undanförnum árum við að endurskoða sænsku stjórnarskrána og við nefnum það til marks um góð vinnubrögð. Þessi tillaga er ekki hér á dagskrá en hún er hluti af því sáttaboði sem við kynntum á fundi sérnefndarinnar.

Síðan eru tvær efnisbreytingar, sú fyrri hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þeirra náttúruauðlinda sem ekki eru í einkaeign og hefur eftirlit með nýtingu þeirra eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slíkar auðlindir má hvorki selja né láta varanlega af hendi.“

Þetta er grein sem nú í þessari mynd tekur mið af þeim umsögnum sem við höfum fengið í nefndinni. Komið hefur fram mjög ákveðin gagnrýni á hugtakið þjóðareign og talið að það væri of óljóst og ef það væri í raun og veru skilgreint eins og eðlilegt væri með hliðsjón af eignarrétti væri þar um ríkiseign að ræða. Það er það sem við erum að segja í þessu án þess að nota hugtak sem veldur greinilega miklum deilum og kallar á gagnrýnin viðhorf sem eru óþörf þegar verið er að breyta stjórnarskrá. Þar á að okkar mati allt að vera klárt og kvitt, það á ekki að vera með atriði í stjórnarskránni sem augljóslega eru til þess fallin að valda ágreiningi og deilum eins og kom fram varðandi umsagnir um þetta hugtak. Við tökum það því burt en segjum sem svo að þarna sé um forsjá ríkisins að ræða. Og það er athyglisvert að í tillögum auðlindanefndar, sem lagðar eru til grundvallar öllum umræðum um þetta mál, þjóðareignina, er sérstaklega vísað til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum og þegar þau lög eru skoðuð og farið yfir þau er augljóst að þar er verið að fjalla um ríkiseign, eign sem ríkið á og ákveður að hljóti þá umsýslu sem lögin mæla fyrir um. Það er ekkert í þessari tillögu okkar annað en að skýra þetta betur, að taka burtu þessi ágreiningsefni um hugtök sem menn átta sig ekki nákvæmlega á hvað þýða.

Síðan hafa orðið hér umræður og hv. formaður sérnefndarinnar og málsvari meiri hlutans gerði mikið veður út af því að við höfum lagt fram skjal í nefndinni sem síðan hafi tekið breytingum áður en við lögðum það fram í þingsalnum og telur hann að það sé einsdæmi í sögu þingsins, ef ég veit rétt. Ég held að það sé álíka áreiðanleg sagnfræði og að bera saman stöðu þjóðfundarins og Alþingis 1851 og stöðu okkar í dag, því að að sjálfsögðu hafa menn lagt fram í þingnefndum skjöl til umræðu í nefndunum og síðan, eftir viðbrögð í nefndinni, komið fram með önnur skjöl inn í þingið þegar þeir sjá hvernig viðbrögðin eru. Ef gefist hefði tóm til þess í nefndinni að ræða efnislega um þessa þætti, það var m.a. fyrirspurn um túlkun á því skjali sem við lögðum fram og þegar við heyrðum hvernig menn túlkuðu það og svör okkar, það var augljóst að það skjal sem við lögðum fram í nefndinni gaf tilefni til þess að túlka skoðanir okkar á rangan hátt, vildum við að sjálfsögðu forðast slíkan ágreining um eitthvað sem eru raunar deilur um keisarans skegg þegar litið er á efni málsins og við lögðum því þetta skjal hér fyrir.

Það er þetta skjal sem er til umræðu nú í þinginu og var hálf hlálegt fyrir okkur að fylgjast með því upphlaupi sem varð hér í gær þegar hv. þm. Siv Friðleifsdóttir rauk upp og gekk greinilega á milli þingmanna til að espa þá til mótmæla við okkur út af einhverju sem ekkert var og er ekki neitt, því að það liggur ekki fyrir annað en ímyndun þeirra sem fengu upphaflega plaggið í hendur hvað í því mundi standa þegar það yrði lagt fram í þingsalnum. Ég tel að þessar deilur séu eins og ég segi, deilur um keisarans skegg og tímasóun þegar litið er á þetta mál því að þessi tillaga okkar er alveg skýr eins og ég las hér og hef kynnt hana. Því þarf ekki að deila um það og setja það mál í einhvern annan búning en það er, nema menn vilji halda áfram að endurspegla það andrúmsloft sem var í nefndinni og þá óvild sem ávallt var sýnd þegar við sjálfstæðismenn vildum hreyfa hugmyndum til að kanna hvort það væri sáttagrundvöllur í starfi nefndarinnar. Á síðasta fundi nefndarinnar, áður en málið var tekið út úr henni, var sagt eins og ég las hér í upphafi að tími sátta væri liðinn þegar við vildum taka umræðu um málið og sögðum að það mundi spara mikinn tíma í þingsalnum ef nefndin gæfi sér tíma til þess að leita sátta í málinu. Það var ekki gert og því er málið statt núna í þeim ágreiningi sem það hefur verið frá upphafi. Sjónarmið okkar hafa skýrst og tillögur okkar liggja fyrir bæði varðandi efni málsins og eins varðandi málsmeðferðina, ef menn vildu taka tillögu okkar til þingsályktunar hér til afgreiðslu.

Virðulegi forseti. Við höfum unnið þetta mál málefnalega, við höfum skýrt okkar sjónarmið í umræðunum, margir hafa tekið til máls og margar ræður verið fluttar og sjónarmiðin eru algjörlega skýr. Okkur er því ekkert að vanbúnaði að halda umræðunni áfram á grundvelli hugmynda okkar og tillagna ef meiri hluti þingsins kýs að gera það. Okkur hefur hins vegar undrað að meiri hluti þingsins skuli ekki hafa áttað sig á því fyrr hver staða málsins væri í raun og veru, hvernig staða málsins væri og hvernig málum væri háttað í þessu, að við erum ósammála málsmeðferðinni og við erum ósammála ýmsum atriðum sem við höfum síðan gert tillögur um og sjáum fyrir okkur í þeirri mynd sem við höfum kynnt.

Hér var síðan vikið að því varðandi 2. gr. frumvarpsins þar sem við leggjum fram breytingartillögu, að það hafi verið eitthvert óhæfuverk af okkar hálfu að leggja þá tillögu fram af því að hún hafi verið rædd á einhverjum öðrum fundi en sérnefndarfundi og á einhverjum öðrum tíma en sérnefndarfundurinn var, formaður sérnefndarinnar hafi setið þann fund og þess vegna orðið mjög undrandi að fá þær tillögur aftur í hendurnar þegar við tillögumennirnir lögðum hana fram. Mér finnst þetta enn eitt dæmi, virðulegi forseti, um það hvernig á öllum þessum málum er tekið, annars vegar erum við sakaðir um að hafa lagt fram tillögu í nefndinni sem við höfum síðan betrumbætt og lagt fram í annarri mynd hér í þingsalnum og við hefðum vafalaust betrumbætt ef einhverjar umræður hefðu orðið um það í nefndinni, og hins vegar erum við sakaðir um að hafa lagt fram tillögu sem formaðurinn hefði séð áður á einhverjum öðrum fundi sem við sátum ekki og þetta er talið okkur mjög til hnjóðs og vanvirðu.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, ég tel að öll framganga meiri hlutans í þessu máli hafi verið á þann veg að í fyrsta lagi hafi verið borið við tímaskorti og síðan ómálefnalegum sjónarmiðum þegar slegið var á okkar framréttu sáttarhönd á fundi sérnefndarinnar í gær og síðan var komið hér upp í ræðustól síðdegis í gær og hugmyndir okkar affluttar og hrópað hástöfum að við hefðum misst einhverja grímu sem við höfum aldrei verið með í þessu máli, við höfum aldrei sett upp neina grímu í þessu máli. Eina fólkið sem ég hef séð með grímu við þinghúsið er fólkið sem hefur staðið hér fyrir utan og lét hana falla eftir að Vinstri græn komust í ríkisstjórnina. Það er eina fólkið sem ég hef séð með grímu í nágrenni við þinghúsið og hefur talið sér sæma að nálgast það með grímu. Við höfum verið án grímu í þessum umræðum, við höfum lagt okkar sjónarmið fram og við höfum kynnt þau og okkur er ekkert að vanbúnaði að halda þessum umræðum áfram. Eins og ég hef sagt hef ég góðan tíma fram að kosningum til að flytja hér fleiri ræður og ég mundi fagna því ef við gætum flutt svona þúsund ræður í tilefni af þessu máli. Við erum búin að tala hér núna rúmlega 700 sinnum, þingmenn, um þetta og ef við næðum þúsund ræðum til að verja heiður Alþingis (Gripið fram í.) væri það mjög til ánægjuauka og það yrði göfugt markmið, (Gripið fram í.) jafnvel tvö þúsund ræður til að verja heiður Alþingis, því að ég tel að aldrei verði fluttar nógu margar ræður hér til að verja heiður þingsins. Ég skora á þá hv. þingmenn sem hér eiga eftir að vera áfram við störf að gleyma ekki heiðri Alþingis og virðingu Alþingis þegar þeir ganga til starfa í þessum þingsal.