136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:32]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Það fer ekki fram hjá neinum að það eru afar sterkar lýðræðiskröfur meðal þjóðarinnar, kröfur um að hún komi beint og milliliðalaust að mikilvægum málum og fái meira um sín mál að segja.

Gegn þeirri kröfu, sem mikill meiri hluti þjóðarinnar setur fram og krefst, telur Sjálfstæðisflokkurinn sig hafa unnið fullnaðarsigur. Ég vil fremur nefna þetta fullnaðarósigur þjóðarinnar, sigur valds Sjálfstæðisflokksins síðastliðin átján ár. Ósigur lýðræðisins. Hér hefur þjóðin tapað en hún hefur aðeins tapað orrustu. Hún hefur ekki tapað þessu stríði um aukið lýðræði.

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson orðaði það svo í ræðu í morgun að stjórnarskrármálið kæmi ekki heimilunum við og úrræðum í þágu heimilanna. Sérkennileg ummæli, sem ég veit að hann sneri fyrst og fremst upp á efnahagsástandið. En lýðræðið skiptir samt sköpum fyrir einstaklinga og fyrir heimilin. Það skapar þá grundvallarumgjörð heimilanna sem við viljum búa við, beint, milliliðalaust og gagnsætt lýðræði. Með gagnsæju, beinu, milliliðalausu lýðræði standa heimilin mun betur gagnvart stjórnvöldum. Rétt eins og þau standa betur með þeim lýðræðisumbótum sem gerðar voru á stjórnarskránni mannréttindakafla hennar árið 1995 og ná stjórnsýslulögum. Afar mikilsverður áfangi fyrir heimilin í landinu, hæstv. forseti. Afar mikilsverður.

Það er sagt að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi staðið frammi með útrétta sáttarhönd. Gallinn á þeirri sáttarhönd var sá, eins og ég upplifði hana, að það var ekki flatur lófi borinn fram til friðar og sáttar heldur krepptur hnefi.

Það er aldeilis alrangt að það hafi ekki verið leitað sáttar um þetta mál. Ég vil aðeins fara yfir efnisatriði þess. 1. gr. varðar náttúruauðlindir, að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu þjóðareign og að þær megi ekki framselja varanlega. 2. mgr. í upphaflega frumvarpinu varðar sjálfbæra þróun sem ég tel afar mikilvægt atriði og hin þriðja varðar líffræðilega fjölbreytni og heilsusamlegt umhverfi. Ákvæði sem eru grundvallarþáttur í lífi manna í dag og hafa verið teknar inn í stjórnarskrár þjóða sem við berum okkur saman við.

Þessar tvær málsgreinar sættu ágreiningi. Við tókum þær út til sáttar. Að því er varðar 2. gr. um að auðvelda breytingar á stjórnarskránni þannig að þær færu undir þjóðaratkvæðagreiðslu, við breyttum líka orðalagi þar og fleiru. Um þriðju greinina gildir hið sama. Það er aukið lýðræði. En um 4. gr. var mikill ágreiningur. Þar rétti Framsóknarflokkurinn fram sáttarhönd og bauðst til að fella þá grein niður og berjast ekki fyrir henni. Það var slegið á hana.

Ég vil vekja athygli á því að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa flutt hér á áttunda hundrað ræður þar af yfir fimm hundruð um fundarstjórn forseta. Langflestar snerust þær um formsatriði og málsmeðferð. Efnisatriðin voru lítt rædd. Ég kostaði kapps um að hlusta á þessar ræður allflestar, flestar úr þingsal og aðrar af skrifstofu minni í Vonarstrætinu.

Ég spurði í andsvörum um afstöðu sjálfstæðismanna til efnisins, margsinnis. Ég heyrði það að 1. gr. gæti gengið, 2. gr. gæti gengið og 3. gr. gæti gengið. Það þyrfti að miðla málum þar. Málamiðlunin sem kom á síðasta fundi nefndarinnar, sem var haldinn þar sem 2. umr. var frestað, var ekki málamiðlun. Okkur voru settir úrslitakostir og meira að segja þannig að það mætti framselja náttúruauðlindirnar. Það stóð greinilega í fyrstu tillögunum. Eins var með 2. gr., þar var Sjálfstæðisflokknum beinlínis fengið neitunarvald og þrengdir kostir til að breyta stjórnarskránni frá því sem nú er. Þetta voru auðvitað úrslitakostir.

Við teygðum okkur eins langt og kostur var en við mættum kröfum, óbilgjörnum kröfum, við mættum úrslitakostum. Þannig upplifði ég það. Ég hef margsinnis í starfi mínu sem lögmaður leitað sátta og átt sáttatilboð. Það eru sáttafundir en ekki til að taka á móti úrslitakröfum.

Mín skýring á málatilbúnaði sjálfstæðismanna í þessu stjórnarskrármáli er ein: Baráttan um völdin. Þeir eru að missa völd sem þeir hafa farið með óskorað í átján ár. Átján ára drottnunarvald. Slíkt drottnunarvald spillir og slíkt drottnunarvald og það að sitja við völd svo lengi hefur áhrif á hugsunarhátt manna. Það hefur birst mjög berlega í umræðunni um stjórnarskrármálið.