136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:52]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, þessi tillaga er fráleit í stöðunni sem er uppi núna, algerlega fráleit vegna þess að hún er svo þung í framkvæmd og jafnvel þó að þingmenn hafi fallist á eitthvað í einhverjum sáttarumleitunum og togi á fyrri tíð þá er ekki þar með sagt að menn vilji samþykkja það núna. Hlutirnir þróast, það eru framfarir í landinu og menn verða að taka sönsum í nýju umhverfi. Sjálfstæðisflokkurinn neitar að skilja það.

Í stað þess að leyfa þessari tillögu sem meiri hlutinn styður að fara fram, um að einfaldur meiri hluti þingmanna geti komið tillögu um breytingu á stjórnarskrá, ákveðnum atriðum hennar inn í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 25% þjóðarinnar þurfa að samþykkja tillöguna, að leggja stein í götu þeirrar tillögu núna er algerlega fráleitt að mínu mati. (Forseti hringir.) Þessi sáttartillaga var mjög slæm (Forseti hringir.) og að sjálfsögðu var henni hafnað.