136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er enn þá óskiljanlegt hvers vegna hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og raunar aðrir sem tóku þátt í að mynda meiri hluta í sérnefnd um stjórnarskrármál, álíta að tillaga sem fyrir rétt tveimur árum var samstaða um milli flokka, (Gripið fram í.) níu stjórnmálamenn, fulltrúar fimm flokka undirrituðu þá tillögu og enginn var neyddur til að undirrita þá tillögu, hvernig er hægt að líta á þá tillögu sem einhvers konar ögrun. Þar var um málamiðlun að ræða milli ólíkra sjónarmiða. Ég veit ekki hvernig á að túlka orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, að við sjálfstæðismenn skyldum í þessu máli telja að það gæti horft til sátta að byggja á þeim grunni sem þá var ákveðinn. Mér finnst alveg fráleitt að taka málinu með þeim hætti. Það er ekki eins og þetta hafi gerst fyrir einhverjum áratugum. Þetta gerðist fyrir tveimur árum og margir af þeim sem tóku þátt í þeirri sátt fyrir tveimur árum sitja enn á þingi.